Skólamötuneytin-fæði eða fóður?

Eins og mörg ykkar vita, höfum við þrjár-ég, Margrét Gylfadóttir og Sigurrós Pálsdóttir- verið að vekja athygli á því fæði….
eða réttara sagt því fóðri….sem viðgengst í skólum borgarinnar.

Ég segi viðgengst-af því að það sem þar í boði er yfirleitt ekki boðlegt.
Sérstaklega ekki börnum sem eru að vaxa og dafna.

Salt, reykt, stútfullt af aukaefnum, forsteikt, innflutt….pakkasúpur
(þar á meðal stafasúpua og kakósúpa…vissi ekki að það væri ennþá til hvað þá í boði í skólum!)

Þetta er það sem er alltof oft á matseðlinum.
Ekki láta blekkjast þó svo að það standi “´ávextir og grænmeti” neðst á matseðlinum…
Það er oftast ekki eins mikið af því á borðum og við myndum halda.

Ekki heldur láta blekkjast af því að Lýðheilsustofnun gefi út viðmið og að talað sé um að fara eftir þeim…
Það er yfirleitt ekki verið að fara eftir þeim (það er líka spurning hvort þar á bæ þurfi ekki líka eitthvað skoða málin).

Það er heldur enginn sem sér um að fylgjast með því hvort farið sé eftir þessum viðmiðum.
Þar af leiðandi…gera bara allir það sem þeir vilja og komast upp með það.

Ekki er alltaf við kokkana að sakast – þó vissulega séu þeir mismeðvitaðir.
Mörgum finnst þetta bara í lagi og að við séum með óþarfa bögg.
Aðrir þakka okkur fyrir að vekja máls á þessum málum og vilja fá tækifæri til að gera betur.

Það er ekki í lagi að bjóða börnum uppá ógeðslegan mat bara af því það er auðveldara og þægilegra.

Það er heldur ekki í lagi að borgin bjóði starfsmönnum mötuneyta skólanna uppá alltof lág laun og lök vinnuskilyrði.

Við fórum að skoða þetta fyrir sirka ári síðan – rétt eftir áramótin í fyrra og vissum engan veginn það sem við vitum í dag.

Við héldum að það væri einfalt mál að fá þessu breytt – kannski fá að hitta kokkinn og
skólastjórann og benda á það mætti bæta mataræðið.
Eins að láta vita að ef vilji væri til, þá værum við meira en til í að hjálpa til við að koma
með tillögur og uppskriftir.

Okkur var vel tekið og það var alveg vilji til að gera eitthvað frá skólans hendi….en það var bara ekki svo auðvelt.

Það sem í ljós kom var, að þessu er öllu meira og minna miðstýrt.

Það hvað má versla og við hverja, byggist allt á rammasamningum sem eru ákveðnir af einhverjum nokkrum köllum úti í bæ sem aldrei koma inn í eldhúsin og vita ekkert hvað þar fer fram.

Í staðinn fyrir að hver og einn kokkur geti hringt þangað sem hann vill og pantað það hráefni sem hann þarf til að gera eitthvað gott og hollt fær hann lista yfir þá sem má versla við það og það misserið.
Þó svo hann gæti notað sér sín sambönd og nálgast betra hráefni á lægra verði – þá má það ekki.

Þannig er þetta um allt land.

Kokkar sem elda í skólum úti á landi – nær afurðunum – mega samkvæmt þessu ekki fá rollu af næsta bæ, heldur verða þeir að panta þær tilsnyrtar af kjötvinnslufyrirtæki sem keyrir það þá til þeirra….jafnvel sama lambið og var alið á næsta bæ….bara búið að senda það í bæinn og tilbaka…er það í lagi?

Þetta finnst okkur ekki boðlegt. Ekki bara er þetta einstaklega óhagkvæmt og umhverfisspillandi, heldur er þetta svo ónáttúrlegt allt saman.

Allt tal um “gamla góða” íslenska matinn…sem kemur stundum upp þegar við hefjum gagnrýni okkar….er alveg ótrúlegt.
Það má vera að þetta heiti sama nafni…og líti svipað út…en ekki segja mér að langömmur okkar hafi haft stauka með
E-efnum og uppfyllingarefnum í hillunni fyrir ofan eldavélina.

Þá erum við ekki einu sinni farin að tala um allan innflutta matinn sem er í boði.
Naggar frá Kína og/eða Alaska…Við spurðum aðila innan borgarkerfisins hvaðan fisknaggarnir væru og þetta var svarið.
Fyrir utan að viðkomandi virtist alveg sama!

Hvað með allan fiskinn sem syndir í sjónum hérna í kringum landið? Er hann ekki nógu góður ofaní börnin eða er hann kannski of góður? Er allt í lagi!!?

Það er ekkert dýrara að elda hollan mat. Það þarf bara smá hugarfarsbreytingu. Það þarf að hugsa þetta alveg uppá nýtt -kannski eyða frekar fé í starfsmannahald í eldhúsunum sem og endurmenntun – og minna fé í unnin og tilbúin matvæli. Eins að rýmka reglur um innkaup. Það sem út úr því kæmi væri betri matur, fleiri störf, ánægðari börn og meiri viðskipti við fleiri aðila.

Börnin eru framtíð okkar…bæði okkar eigin börn sem og annara börn. Þau eiga að erfa þetta land – eða það sem eftir er af því – og við stólum á að þau sjái um okkur í ellinni.
Hvernig eiga þau að fara að því þegar þau verða þjökuð af sykursýki, ofvirkni og fleiri sjúkdómum sem búið er að sá sami matur og þeim er boðið uppá stuðli að?

Þið vitið kannski að það er sami matur í boði á elliheimilum landsins….guð forði okkur frá því að þurfa að lenda þar í mat.
Þar þarf að taka alveg jafn mikið til hendinni og í skólunum. Það þyrfti eiginlega að skoða þessi mál samhliða.

Þetta kemur okkur öllum við. Ef við komum ekki vel fram við börnin okkar og gamla fólkið okkar – þá er ekki mikið í okkur varið.

Hagfræðilega séð er þetta líka mikið vandamál. Þess meira sem er keypt innflutt og foreldað – þess minni næring – þess óhollari matur – þess fleiri sjúklingar – þess dýrara heilbrigðiskerfi….
Er virkilega enginn að sjá samhengið? Það er alveg kominn tími til að það verði gert eitthvað í þessu – í staðinn fyrir að stofnuð verði enn ein nefndin sem engu skilar.

Þetta eru engin geimvísindi;)

Advertisements