Ég fer stundum og birgi mig upp af alls kyns núðlum.
Úrvalið í matvöruverslunum er oft frekar lítið og takmarkað, en það er fínt að fara í asíska súpermarkaði sem eru hér nokkrir.
Þar er miklu meira úrval og oft betri verð á ýmsu – t.d. hrísgrjónum.
Í kvöld ákvað ég að hafa eitthvað létt og einfalt. Það þýðir oft núðlur í alls kyns útfærslum…með kjúkling, rækjum eða bara með grænmeti…í teriyakisósu, grænu karrí og kókos…ofl ofl útfærslum. Þessi hér fyrir neðan er samt líklega sú einfaldasta og ættu allir að geta lagt í hana.
Ekki er verra að kenna eldri börnum eða unglingum að hafa þetta til og láta þau sjá um að redda matnum við og við.
Það sem ég notaði var:
1 rauð paprika- skorin í ræmur
1/2 púrrlaukur – skorinn í ræmur
1 brokkolíhaus – hlutaður í litla bita
500 gr rækjur
1/2 rauður chilli – smátt skorinn
2 stór hvítlauksrif – smátt skorin
Ferskur engifer – rifinn á rifjárni…ca þumalstærð
vermicelli núðlur
vatn 2-3 msk
sesamolía 2-3 msk
tamari sojasósa- eins og maður vill…
safi úr 1/2 lime
Setti grænmeti, engifer, chilli og hvítlauk saman á pönnu með smá vatni, sesamolíu og limesafa. Leyfði þessi að malla saman:)
Á meðan hafði ég núðlurnar til.
Passa að ofsjóða þær ekki – stendur vanalega aftaná pakkanum hvernig er best að elda þær – fer eftir tegund.
Setti núðlurnar svo á pönnuna með grænmetinu og hellti fullt af sojasósu þar á.
Það er ekki verra að setja smá sesamfræ yfir ef maður man eftir!