Alvöru granóla sem maður gerir sjálfur er einhvern veginn margfalt betra en það sem maður kaupir úti í búð.
Það finnst mér allavega. Það er misjafnt hvað ég nota í það – blanda saman ýmsum gerðum af hnetum og þurrkuðum ávöxtum, grófu haframjöli og fræjum.
Ég byrja á hnetunum…
50 ml ólívuolía
100 gr hrásykur
50 gr hunang
250 gr makadamíahnetur
125 gr pekanhnetur
125 pistasíur
125 gr brasilíuhnetur
Hita olíu, sykur og hunang saman í potti og helli svo hnetunum útí.
Það þarf að passa að hræra í hnetunum við og við svo þær brenni ekki – en annars er tilgangurinn að þær verði dálítið stökkar og taki smá lit.
Næst helli ég þeim í fat eða ofnskúffu og svo inn í ofn við 190-200 gráður í sirka 20-30 mínútur.
Passa bara að hræra í þeim við og við svo þær ristist jafnt.
Það þarf líka að hræra aðeins í þeim þegar þær koma út úr ofninum.
Helli þeim á smjörpappír sem ég er búin að spreyja olíu á ( svo þær festist ekki við ) og næ þeim svo í sundur – með skeið til að byrja með og svo með
höndunum þegar þær eru orðnar nógu kaldar til að höndla.
Það þarf ekkert endilega að nota allar hneturnar í granólað…þær eru líka mjög góðar svona einar og sér.
Það er líka gott að setja smá kanil í olíuna og sykurinn. Jafnvel að strá smá yfir þegar hneturnar eru búnar að vera í smástund í ofninum.
Sama með haframjölið ( bara uppá að kanillinn brenni ekki ).
Haframjölið laga ég svona…..
100 gr ólívuolía
200 gr hrásykur
100 gr hunang
800-1000 gr tröllahafrar
Hita olíuna, sykurinn og hunangið saman í potti.
Útí það set ég 800 – 1000 gr tröllahafra.
Blanda þessu vel saman og set svo á bakka með smjörpappír í ofn – þar til farið að gyllast aðeins – 15 – 20 mín…best að fylgjast samt vel með því og hræra kannski nokkrum sinnum á meðan. Þetta þarf líkalega að fara í tvennu lagi inn í ofn – eða á tvo bakka.
Svo blanda ég þessu saman…
Set haframjölið í stóra skál.
Saxa hneturar í þá stærð sem ég vil hafa þær.
Blanda svo ávöxtum útí….t.d. þurrkuðum trönuberjum, þurrkuðum bláberjum og gojiberjum.
Má líka alveg vera rúsínur, þurrkaðar apríkósur, þurrkuð epli,….bara hvað sem maður vill.
3-4 msk útí skál með AB mjólk, grískri jógúrt eða mjólk…gott að setja líka ferska ávexti með…banana, jarðarber, bláber….
Má næstum því nota sem desert…allavega svona hversdags:)
P.s.hef ekki prófað þetta með ís…gæti samt vel trúað að það væri gott…
One Comment Add yours