Erfðabreytt….lífrænt…matvælaöryggi….Jói Fel…þvílíkur hrærigrautur…

Mig langar aðeins að koma með smá innlegg í þá umræðu sem hefur verið hér uppá síðkastið um matvæli.
Ég á örugglega eftir að koma með fleiri – en þetta er það sem mér er efst í huga akkúrat núna.

Við og við birtast greinar….misvel unnar…með fyrirsögnum eins og “lífrænt er ekki hollara” …
“erfðabreytt er ekki óhollara”…osfrv..osfrv…osfrv…

Fyrir utan allt tal um “matvælaöryggi”…..sú umræða öll er á algjörum villigötum.

Meðan við getum ekki framleitt fóður fyrir skepnurnar eða olíu á vélar og tæki sem þarf að nota við landbúnaðarstörf – er ekki hægt að tala um “sjálfbærni”.

Það gengur einfaldlega ekki upp!

Ég rakst í vikunni á grein í Fréttablaðinu undir fyrirsögninni “Auðvelt að plata” og var skrifuð undir nafni Jóhannesar Felixsonar – sem er betur þekktur undir nafninu Jói Fel.

Ég skil eiginlega ekki almennilega hvað hann er að fara með sumu sem hann segir í þeirri grein.

Við vitum öll að hvítur sykur og hvítt hveiti er ódýrara og því líklegast mestur hagnaður út úr brauði og bakkelsi bökuðu úr því – þá á ég bæði við það sem þó er bakað hér og eins það sem er innflutt frosið og tilbúið til baksturs. Er hugsanlega bara verið að reyna að selja fleiri hveitibrauð og bakkelsi?

Hann talar um sykur…og hollustu….og virðist haldinn þeim misskilningi ( held samt að hann viti betur ) að þegar talað sé um aðrar tegundir af “sætu” eins og hrásykur og agave, sé fólk að halda því fram að það sé hollur sykur…
Held að enginn haldi það eða haldi því fram – það er hins vegar vitað mál að hrásykur er “hollari” en hvítur sykur – m.a.
af því að hann er minna unninn en hvítur sykur….hefur ekki verið gerður hvítur með klór.

Agave er svo aftur þeim eiginleikum búið að það sveiflar blóðsykrinum minna – vissulega hlýtur það að vera betra fyrir þá sem þurfa að passa uppá blóðsykurinn..

Persónulega er ég ekkert svakalega hrifin af agave – nota frekar hlynsíróp og hunang – en það er bara minn smekkur.

Mér skilst á þeim sem ég hef rætt við og til þekkja, að agave síróp sé svo aftur mismunandi – mismikið unnið….hef ekki almennilega sett mig inn í það.
Það er því engan veginn hægt að setja það allt undir einn hatt.

Talandi um sykur og sætuefni…það er eitt enn sem er líklegast ennþá verra en sykur og það er “High fructose corn syrup” .

Þetta er efni sem er unnið úr sykri, en er margfalt sætara og hefur fundið sér leið inn í hin ýmsu matvæli.

Þar sem þetta “stöff” er sætara og það þarf minna af því en sykri ( er þar af leiðandi ódýrara ), þá hefur það fundið sér leið inn í hinar ýmsu tegundir matvæla.
Þetta er t.d….í sælgæti, gosdrykkjum, kexi, brauðum….sósum, sultum…og svona mætti lengi telja.

Það ætti að vera alveg jafn “bannað” og transfita…og verður það vonandi einhvern tímann.

Ekkert af þessu er hollt…bara mismunandi óhollt….

Að lífrænum matvælum….

Lífræn matvæli eru yfirleitt margfalt hollari og næringarríkari – svo ekki sé talað um hvað það er gott að vera laus við allt eitrið sem er úðað á sumar tegundir matvæla. Það er það sem mér sem mér sem neytanda finnst miklu máli skipta….Það eru vissulega til rannsóknir á báða bóga.

Ég trúi fremur þeim rannsóknum sem telja lífrænt hollara – kannski af því mér finnst lífrænt hráefni yfirleitt betra og mér líður betur af því.
Ég er sem sé þarna búin að gera mína eigin rannsókn og hún hefur staðið um árabil og er hvergi nærri lokið.

Sumt er ekki til lífrænt – en þá er annað ráð:

Það grænmeti sem er ræktað hér á landi, er miklu hollara en það sem er flutt langan veg og hefur verið sprautað á fullt af eitri til að það lifi af ferðalagið og alla leið á diskinn þinn….hugsið um það aðeins…
Næringarefni tapast við langa flutninga. Það er líka slæmt fyrir umhverfið að flytja matvæli langar vegalengir.

Helst ættum við að reyna að neyta sem mest af því sem árstíðirnar hafa uppá að bjóða – um leið og grænmetið er tekið upp. Þá er það hollast.
Helst ætti þetta grænmeti að vera lífrænt – en ef það er ekki í boði – þá a.m.k íslenskt.

Þar með er ég alls ekki að segja að íslenskt sé alltaf best….það er langt í frá.

Ég fæ alveg grænar ( hroll – ekki baunir…sem by the way eru ekki íslenskar…) þegar fólk talar um hvað íslensk matvara sé besta matvara í heimi.
Það er ótrúleg alhæfing og segir í raun það eitt að viðkomandi hafi ekki ferðast víða og þar af leiðandi farið á mis við að prófa eitt og annað matarkyns.

En….margt er í lagi – sérstaklega þegar það er ferskt. En ekki reyna að halda því fram að íslenska lambakjötið og íslensku tómatarnir séu bestir í heimi.
Það er bara hroki af því tagi sem hingað til hefur leitt okkur til falls.

Hveiti og annað mjöl sem hingað er flutt er að miklu leyti til erfðabreytt.

Lífræn matvæli eru aldrei erfðabreytt

Það eru alls kyns rannsóknir þarna úti…sumar sýna að lífrænt sé hollara og aðrar að það sé það ekki.
Hvað af þessu sem er “rétt”, þá er ekki hægt að þræta fyrir það að aukaefni og eiturefni eru ekki holl neinum og geta skaðað heilsuna.
Þess háttar aukaefni eru ekki notuð í lífrænni framleiðslu.

Þess utan er lífræn matvara yfirleitt bragðbetri en ólífræn.
Ef það eitt og sér er ekki næg ástæða…

Eitt sem lítið hefur verið rætt um er umhverfisþátturinn.
Jarðvegur sem er sprautaður með eitri deyr…meðan jarðvegur þar sem lífræn framleiðsla á sér stað lifir...

Ræktarland fer minnkandi í heiminum sökum jarðeyðingar og þess vegna er mikilvægt að stuðla að aukinni lífrænni ræktun.
Fyrir utan, að ef það er lífrænt – þá er það allavega ekki erfðabreytt á meðan.

Ég er held ég með þetta eins og flestir…vil vita hvað ég er að setja ofaní mig – eiga val.
Stundum velur maður “rétt” ( hollari kostinn ) og stundum ekki ( fær sér einhverja óhollustu ).

Ég verð að segja að fyrir mitt leyti kýs ég fremur að kaupa brauð frá Brauðhúsinu Grímsbæ heldur en frá Jóa Fel eða öðrum sambærilegum bakaríum.
Mér finnst flest bakarísbrauð hérna alltof loftmikil og það er svona versmiðjufílingur í þeim flestum.
Það vantar einhverja sál sem manni finnst að eigi að vera í brauðum og öðru bakarísdóti.
Það virðist lítið um alvöru handverk – og það finnst á bragðinu þekki maður muninn.

Víða um heim sér maður alvöru bakarí með girnilegu og gómsætu bakkesli….
Hér á landi snýst valið nokkurn veginn um…snúð, kanilsnúð, vínarbrauð eða skúffuköku.
Og hvort maður vilji bleikan eða brúnan glassúr ofaná jukkið…

Ég myndi fegin vilja hafa meira val…geta valið um fleiri hluti úr betra hráefni.
Í þeim efnum erum við töluvert á eftir nágrannaþjóðum okkar. Ég er þá ekki að tala bara um þessar næst okkur.

Ég kom til dæmis inn í eitt af flottari bakaríum sem ég hef komið í þegar ég var í Tyrklandi síðasta sumar.
Kökurnar og brauðin þar voru eflaust full af sykri og hvítu hveiti…en það var búið að búa til stórkostlega góða hluti úr því. Það var alvöru bragð af því sem þar var í boði og það var ekki bara sama pappabragðið af öllu eins og oft vill verða hér.

Það var líka mikið að gera þar – eiginlega fullt út úr dyrum – af því fólk vissi að þarna var það fá eitthvað gott.
Hefur einhver lent í alvöru þvögu í bakaríi hérlendis? Ekki ég allavega.

Hérna virðist oft vera lítill metnaður lagður í hlutina – hugsanlega er oft bara verið að reyna að komast upp með eins lítil gæði og hægt er.
Það er gengið að því vísu að íslendingar séu afspyrnu lélegir neytendur. Sem við vissulega erum.
Við erum tilbúin til að láta ýmislegt yfir okkur ganga áður en við látum í okkur heyra – jafnt í þessum málum sem öðrum.

Víða um heim er líka meira úrval af lífrænum afurðum og fólk hefur val.

Ef viðskiptavinirnir vildu ekki lífærnu afurðirnar- væru þær einfaldlega ekki framleiddar.
Það er engin tilviljun að sala á lífrænum afurðum fer vaxandi í hinum vestræna heimi.

Meðvitaðir neytendur í flestum löndum eru að taka ákvarðanir á degi hverjum – með veskinu sínu.
Það er ekki síst óttinn við þau áhrif sem erfðabreytt matvæli geta haft á heilsu fólks til framtíðar sem þar ræður.

Við og við er fleygt upp í fjölmiðlum fréttum með fyrirsögnum eins og
“Lífrænt er ekki hollara”….eða…”verðum að leyfa erfðabreytt matvæli til að geta fætt heiminn”…

Það er sjaldan farið neitt lengra í að skoða hvað þar er að baki. Hver gerði könnunina? Hvernig var hún framkvæmd?
Hver kostaði könnunina? Var hugsanlega verið að bera saman epli og appelsínur?

Svo er það allt þetta tal um “matvælaöryggi”…..

Ef okkur er svona umhugað um að fæða heiminn, þá ættum við að sjálfsögðu að byrja á því að hætta að drekka kaffi.
Ímyndið ykkur allt landið sem fer undir kaffirækt í fátækari löndum heims – sem er svo aftur meira og minna drukkið af vesturlandabúum sem hafa
efni á því….og mikið af því í pappamálum ( það er nú alveg sér kapítuli ).

Af hverju ekki að hætta að kaupa kaffi – þá minnkar eftirspurnin eftir því – sem aftur þýðir að bændur þar fá aftur land sitt til matvælaræktunar.

Það er miklu betri og raunhæfari leið til að byrja að vinna gegn hungri í heiminum.
Hugsið um það næst þegar þið hellið ykkur uppá.

Í öllum þessum hafsjó “upplýsinga” og “ekki frétta”, er best að það ákveði bara hver fyrir sig.

Ég vel lífrænt hráefni þegar það er í boði, svo framarlega sem það er jafn gott eða betra en sambærileg afurð sem er ólífræn.
Það er það yfirleitt – í einhverjum tilfellum er það ekki eins gott eða þá að það er einfaldlega ekki í boði.
Þá kaupi ég það ólífrænt. Maður getur ekki fengið allt sem maður vill…allavega ekki ennþá!!

13 Comments Add yours

  1. Margrét says:

    Takk fyrir þetta. Góð skrif um þarft efni. Það er soldið róttækt að hætta að drekka kaffi. Fráhvörfin standa ekki bara í nokkra daga, nokkrar vikur frekar. En vellíðanin verður síðan stórkostleg. Slökun og hvíld alla daga, allan daginn! Vonandi fer fólk að pæla meira í þessu.

    Like

    1. Sigurveig says:

      Takk fyrir það:)
      Þetta er mál sem skiptir mig miklu máli. Og ætti að skipta okkur öll miklu máli.

      Í sambandi við kaffið – bara að benda á að þetta er ein leið til að lagfæra ástandið í heiminum. Þá værum við að tala um “alvöru matvælaöryggi” fyrir þá sem mest þurfa á því að halda:)

      Það er bara svo auðvelt að sitja heima með kaffi í krús, hrista hausinn yfir ástandinu í heiminum, en vera svo ekki reiðubúinn að tengja það við sína eigin hegðun eða gera neitt til að breyta henni.

      En annars með kaffið…ég hætti því stundum í lengri og skemmri tíma og fæ engin fráhvörf… Ég drekk annars orðið svo lítið kaffi að það mælist kannski ekki lengur….Annars er ég sammála þér – langbest að sleppa því….gott kaffi er bara svo gott….!!

      Like

  2. Nanna Rögnvaldardóttir says:

    Ég er reyndar sammála um það bil öllu sem Jói segir í viðtalinu.

    Hann er einmitt sérstaklega að mæla með aukinni neyslu á grófu, sykurlausu brauði en bendir um leið á að spelt er ekkert hollara en hveiti (inniheldur reyndar töluvert minna af trefjum) .

    Hann segir hvergi að fólk haldi því fram að t.d. agavesíróp og hrásykur sé hollur sykur, heldur hollari en hvítur sykur, en það sé ekki rétt – og er þarna að vitna í ágæta grein eftir Guðrúnu Adolfsdóttur matvælafræðing sem birtist í tímaritinu Matur er mannsins megin. (Hún lýkur grein sinni á orðunum: ,,Er betra að nota agavesíróp, hrásykur, hunang, hlynsíróp eða ávaxtasykur við matreiðslu í stað sykurs? Svarið er nei, alls ekki. Út frá almennri efna- og lífeðlisfræðiþekkingu er ekki réttlætanlegt að svara spurningunni játandi.” Ég er alveg sammála þessu – nota reyndar sumt af þessu en það er út af bragðeiginleikum en ekki meintri hollustu – sorrí, minni óhollustu.)

    Sumar tegundir af agave-sírópi innihalda meira að segja mun meira af frúktósa en high-fructose corn syrup, eða eru jafvel drýgðar með HFCS unnu úr erfðabreyttum maís – og sama er reyndar að segja um sumar tegundir hlynsíróps.

    Sykur er ekki hvíttaður með klóri (það er hveiti aftur á móti), heldur er yfirleitt notað kolefni unnið úr brenndum stórgripabeinum (bone char).

    Like

    1. Sigurveig says:

      Spelt er reyndar próteinríkara og B vítamínríkara en hveiti – og yfirleitt glútenminna. Ég hef svo sem hvergi séð neinar fullyrðingar þess að það sé hollt – en vissulega getur það verið hollara. Sama má segja um sykur. Hef hvergi séð haldið fram að neitt af þessum sykurvöru séu “hollar”. Hins vegar eru þær misóhollar. Hvítur sykur er verstur – það er staðreynd. Það gerir aðrar sykurvörur ekki hollar. Hann er dálítið að staðhæfa að verið sé að halda því fram, meðan það er alls ekki rétt.

      Hrásykur er náttúrulega unninn -amk demerara og moscovado.
      Þar er engu bætt við. Hann er 100% náttúrulega unninn og engum mólössum bætt við eftir vinnsluna til að breyta litnum.

      Púðursykur er svo aftur annað mál. Þar er mólössum bætt við í framleiðslunni.
      Hann slær þessu tvennu saman þarna.

      Agave síróp er mismunandi unnið. En með því að telja bara til það sem er mikið unnið – er verið að alhæfa dálítið mikið.
      Ég er enginn sérstakur aðdáandi agave – en ég veit að það er mjög mismunandi unnið.

      Hins vegar er auðvelt að koma í veg fyrir það að fá þessar vörur erfðabreyttar – en það gerir maður með því að kaupa þær lífrænar.
      Það er ekki leyfilegt að nota erfðabreytt korn við ræktun lífrænna afurða.

      “Því er neytendum sagt ósatt þegar þeim er talin trú um að brauð þeirra verði hollara úr spelti. Þá hafa margar rannsóknir sýnt að lífrænt ræktaður matur er ekki hollari þegar litið er eingöngu á næringarinnihald,” segir Jói.

      Það hafa reyndar líka verið margar rannsóknir sem halda akkúrat öfugu fram – að lífrænar vörur séu næringarríkari.
      Og spelt er talið næringarríkara líka….ég er því ekki alveg viss um hvað hann er að tala um.
      Ég er allavega óssammála.

      Það sem ég skil kannski síst er fyrirsögnin -“Auðvelt að plata”.
      Hann gefur sterklega í skyn að öll umræða um agave, hrásykur og aðrar sykurvörur snúist um að þær séu hollar og að þar með sé verið að plata.
      Það er er ekki rétt. Ég hef allavega aldrei orðið vör við það að það sé talað um neitt af þessu sem eitthvað serstaklega hollum vörum.
      Allt er gott í hófi – og það sem er minna unnið er betra en það sem er meira unnið. Það held ég að allir geti verið sammála um.

      Ég er reyndar ekki sammála honum með að við þurfum að auka við okkur í brauðáti.
      Held að við eigum nú einhvers konar heimsmet í því:)

      Hins vegar þyrftum við að borða meira grænmeti og ávexti.
      Það er ágætis kolvetnagjafar. Ef maður kaupir það svo lífrænt, þá er maður allavega viss um að það er ekki erfðabreytt eða sprautað með eitri.

      Ég er hins vegar að tala um mun meira í greininni sem mér finnst meira máli skipta en nákvæmlega þetta tal um hrásykur og sykur, lífrænt og ólífrænt og hollustu eða óhollustu þessara afurða.

      Það verður nefnilega að horfa dálítið á “stóru myndina” í sambandi við matvælaframleiðslu í heiminum.
      Það vill dálítið gleymast finnst mér. Og orðskrípið “matvælaöryggi” þoli ég ekki.
      Það ristir alveg merg og bein!

      Er ekki hægt að finna eitthvað betra orð???

      Like

      1. Nanna Rögnvaldardóttir says:

        Ef þú skoðar töfluna sem fylgir viðtalinu og er tekin úr ÍSGEM-grunninum hjá Matís (líka hægt að skoða hann á síðu Matís), þá sést þar að það er minna prótín (þess vegna er það oft glúteinminna, glúten er prótín) í spelti en hveiti – og mun minna af trefjum. Það er ívið meira af B1-vítamíni í hveiti, ívið meira af B2-vítamíni í spelti. Og mun minna af trefjum í spelti, hvort sem borið er saman hvítt spelt og hvítt hveiti eða heilkorna spelt og heilhveiti. Svo að ég set spurningamerki við að það sé hollara. Sem ég hef einmitt mjög oft séð fullyrt.

        Ýmislegt af því sem er selt sem hrásykur er í alvöru hreinsaður sykur sem búið er að bæta melassa aftur saman við. Og ég er alveg sammála því að þar er mun tryggara að kaupa lífrænt ræktað. – Jói er ekkert að slá neinu saman, þetta kemur fram í grein næringarfræðingsins í Matur er mannsins megin, en það gæti verið að blaðamaðurinn sem tók viðtalið sé aðeins að oftúlka.

        Það er mjög langt frá því að við eigum heimsmet í brauðneyslu, hún er í heildina svipuð eða minni og í nágrannalöndum, hins vegar borðum við minna af grófu brauði en þar er gert og óvenju stór hluti er í formi pizzubrauðs og þess háttar.

        Væntanlega hefur blaðamaðurinn valið fyrirsögnina en ekki Jói. En ég tek alveg undir hana – það er mjög auðvelt að plata fólk og koma inn hjá því að tilteknar vörur séu hollar(i) no matter what (og NB: hann segir í gegnum allt viðtalið hollari en ekki hollar). Þar er agave-sírópið gott dæmi. Það er mjög misjafnt að gæðum eins og þú bendir á og sumt jafnvel óhollara en hvítur sykur en umræðan hefur verið þannig að margir halda að það sé nóg að kaupa agave-síróp og nota það bara í sykurs stað. Ég sá því einhvers staðar haldið fram um daginn að agave-síróp væri þó hollara en sykur að einu leyti – það væri svo dýrt að fólk notaði mun minna af því. Kann að vera eitthvað til í því.

        Um flest hitt er ég annars sammála þér.

        Like

  3. Kári Gautason says:

    Ágætis pistill. En punkturinn um kaffið er ekki gáfulegur. Land sem hentar undir kaffiframleiðslu hentar eiginlega ekki í neitt annað
    Það er þurrt, hátt yfir sjávarmáli og yfirleitt afar óslétt.

    Like

    1. Sigurveig says:

      Einhvern tímann heyrði ég bananarækt nefnda sem svipað dæmi. Punkturinn er sá, að ef við leggjum of stórt landsvæði undir ákveðna tegund ræktunar og útilokum aðra – þá mun það ekki verða til hagsbóta – hvorki fyrir ræktendur né umhverfið. Það eru yfirleitt notuð mikil eiturefni við bæði banana og kaffirækt, sem aftur skemmir landið sem það er ræktað á.

      Ég er aðallega að benda á öfgarnar – og það að við þurfum að sjá hlutina í stærra samhengi.

      Like

  4. Góður punktur með kaffið.
    Feginn að ég lagði eitthvað af mörkum þegar ég hætti á þeim drukk.

    Svo er þetta þessutan hálfgert dóp.

    En kannski ekki víst að þeir í Brasilíu séu sammála til að byrja með.

    Like

  5. Jón B G Jónsson says:

    Takk fyrir góða grein. Er sammála með bakaríin. Ég er mikill kökukall en hef ekki fundið verulega gott bakarí á höfuðborgarsvæðinu. Mér finnst úrvalið og bragðið vera alls staðar mjög svipað. Þetta er eins og með rjómaísinn! Ef þú vilt ekta rjómaís þarftu að kaupa þann útlenda. Reyndar er aðeins byrjað með ís beint frá býli en hann er ekki alveg að gera sig þó ágætur sé.

    Like

  6. Neeiiiii ekki taka kaffið frá okkur – þá er lífið búið :-)
    Kveðja að norðan.

    Like

    1. Sigurveig says:

      Kaffi er gott – eins og fleira – í hófi. Var að pæla í öðru í sambandi við kaffið – lofa að taka það ekki!!:)

      Like

  7. Júlíus says:

    Takk fyrir fína grein. Vildi svo til að ég var að horfa á Food inc. og ramba svo inná þessa grein í kjölfarið. Það er varla að maður þori að borða neitt nema eigið ræktað héðan í frá :)

    Like

    1. Sigurveig says:

      Veit alveg hvað þú átt við….Það ættu fleiri að sjá þá mynd – hún er alveg mögnuð.
      Það þarf liggur við próf í efnafræði til að fara út í búð og versla í matinn.
      Ég er farin að halda að það sé best að fara að rækta bara sitt eigið og fá sér hænur í garðinn:)

      Like

Leave a comment