Af einhverjum ástæðum hef ég verið dálítið oft með gúllassúpu í vetur.
Kannski er það kuldinn. Kannski af því mér finnst hún góð. Líklega bæði.
Það eru til margar uppskriftir að gúllassúpu þarna úti og núna bætist ein við.
Regla eitt-það verður að gefa súpunni góðan tíma!
Það þýðir ekkert að koma heim klukkan 5 og ætla að hafa gúllassúpu í kvöldmatinn.
Það verður að byrja að elda hana í hádeginu ef hún á að vera í kvöldmatinn og helst í hádeginu daginn áður.
Svo þarf að smakka og krydda til jafnt og þétt – allan tímann meðan hún er að malla.
Það má alveg gera eitthvað annað á meðan hún mallar – en það verður að kíkja í pottinn við og við:)
Ég vil hafa nóg af grænmeti í súpunni…gulrætur og kartöflur…lauk og sellerí.
Svo er gúllas líka gott…bara spurning um að hafa minna af vatni, sjóða kartöflurnar sér og gera kartöflumús…
Hér kemur uppskrift:
300 gr laukur – frekar smátt saxaður
300 gr gulrætur – skornar í bita
50 gr sellerí
1 kg gúllas
2-3 tsk tómatpúrra
1 flaska Passata/2 dósir tómatar
og svipað magn af vatni
1 teningur af nautakrafti
500 gr kartöflur
2-3 tsk maldonsalt
1-2 tsk hvítur pipar
1 msk sæt paprika
1 msk sterk paprika
1 msk malað kúmen
1/2 tsk cayennepipar
3 lárviðarlauf
Laukur, sellerí og gulrætur í pott með smá ólívuolíu og látið malla þar smá stund.
Passa að hræra á meðan svo það brenni ekki.
Kjötið þar næst útí – ásamt kryddunum. Látið brúnast og taka smá lit.
Þar næst tómatpúrran og tómatarnir ( hvort heldur er Passata tómatsósa eða tómatar í dós ).
Svo set ég kartöflurnar útí, teninginn…og leyfi þessu að malla eins lengi og hægt er.
Það má að sjálfsögðu nota meira…eða minna af grænmeti.
Aðalatriðin finnst mér vera:
– Að leyfa henni að malla…lengi…
– Að kaupa kjötið helst 2-3 dögum áður og leyfa því að meyrna aðeins.
– Að nota góð krydd.
Verði ykkur að góðu!:)
Í Tyrkneska Bazarnum í Síðumúla er hægt að fá tyrkneskt paprikumauk. Algjör nauðsynjavara, sérstaklega í gúllas.
LikeLike
Tyrkneskur bazar í Síðumúla? Alveg farið framhjá mér… Skoða það!
LikeLike