Það var smá rigningarúði þegar við lentum í gær en verður vonandi þurrt í dag.
Komum frekar seint hingað – klukkan að ganga 7 í gærkvöldi.
Fórum í smá göngutúr fyrir matinn. Gengum aðeins um kínahverfið.
í San Fransisco er eitt elsta Kínahverfi í heimi…fyrir utan Asíu það er að segja…
Þarna úir og grúir af alls kyns skrautlegum varning…oft eru þetta hlutir sem glepja augað og fólk kaupir en veit svo ekkert hvað það á að gera við…. En það er gaman að ganga um hverfin og skoða sig um aðeins.
Fórum svo að borða á þessum veitingastað- Michael Mina
Virðist vera hluti af stærra batteríi – sem byggt er upp í kringum kokk að nafni Michael Mina
Sé að hann hefur haft 2 Michelin stjörnur…misst þær niður í eina í fyrra og svo enga í ár…
Það hlýtur að vera sárt… Spurning hvort hann hafi opnað einum stað of mikið og misst fókusinn?
Maturinn var ágætur…hef fengið betri og hef fengið verri…
Fékk mér foie gras á undan – sem var borið fram á bókhveitipönnuköku og með ananas og sérkennilegri súpu/sósu/drykk ( var ekkert af þessu en samt allt í einu einhvern veginn ) í skál til hliðar…sem var pínulítið of sæt fyrir minn smekk og passaði ekki með réttinum.
Í aðalrétt fékk ég mér svo andabringu. Hún var alveg frábærlega rétt elduð…mjúk og góð.
Það er oft smá áhætta að panta önd – getur verið seig og vond. En þessi var fullkomin.
Var eiginlega hápunkturinn á matnum. Meðlætið var OK. Ekkert til að hoppa hæð sína yfir, en í góðu lagi.
Á stöðum af þessari gráðu finnst mér mikilvægt að þjónarnir séu hálf ósýnilegir. Kannski er ég bara svona gamaldags…En mér finnst það eiginlega oft vera truflun þegar verið er að koma á borðið endalaust með alls kyns millirétti…og langar ræður um matinn sem maður er að fara að borða… Getur orðið pínulítið tilgerðarlegt.
Það eru alveg til staðir þar sem þetta er í fullkomnu jafnvægi, en þeir eru fleiri þar sem það er ekki.
Fengum í millirétt blómkálsfroðu með parmesanbrauði…sem var allt í lagi en ekkert frábært. Svo kom ristað súrdeigsbrauð sem var borið fram með ricottaosti með heitu hunangi – það var aftur á móti mjög gott.
Mér leiðist yfrleitt allt tilstand við matinn þegar hann er kominn á borðið…eins og þegar verið var að hræra saman tunfisktartarinn á disk við borðið…alveg 2 millimetra frá mínum disk…
Finnst í lagi að það sé flamberað eða skorið á borði “við hliðina” á borðinu mínu….
En ekki á borðinu mínu…það er bara bögg…
Annars vel ég mér sjaldnast staði út frá Michelin stjörnum.
Hef farið á nokkra og þeir eru ansi misjafnir. Svo eiga þeir það til að dala….vera góðir einn daginn en ekki eins góðir í næsta sinn…. Það er eins með marga staði. Kannski þess vegna sem ég nenni svona sjaldan út að borða.
Desertarnir fannst mér ekkert svakalega spennandi.
Það var eiginlega ekkert val – það var bara hægt að fá eina gerð…sem samanstóð af 6 mismunandi munnbitum.
Tilhugsunin um að hlusta á þjóninn lýsa þeim öllum meðan þeir bráðnuðu á disknum var eiginlega of mikið fyrir mig á þessum punkti…
Var í svo skemmtilegum félagsskap að það hefði bara verið of alltof mikið áreiti:)
En nóg um þetta….
Klukkan er núna að verða 9 að morgni hérna megin hafsins og sólin er farin að skína skært.
Það er ekkert smá gott að sjá hana eftir allan þennan tíma…
Var farin að halda að hún væri týnd, en hún hefur greinilega bara verið að fela sig í vetur.
Er að hugsa um að fara að koma mér út af herberginu og finna fleiri skemmtileg ævintýri:)