Hér eru svo mörg og fjölbreytt hverfi að það tæki marga daga að skoða þau öll – hvað þá að gera þeim almennilega skil. Í gær gengum við um Fisherman´s Wharf. Það er svæði hér niðri við San Francisco flóa sem skemmtilegt er að skoða. Þaðan fara bátar í siglingar um flóann….þarna er vaxmyndasafn…sædýrasafn…og ýmislegt hægt að finna sér til afþreyingar.
Á Pier 39eru veitingastaðir og verslanir sem gaman er að skoða á góðviðrisdegi. Ekki síst súkkulaðibúðina…..
Siglingar til Alcatraz eru vinsælar…svo vinsælar að þær eru bókaðar marga daga fram í tímann.
Það er víst hægt að panta á netinu – þannig að það er líklega betra að gera það til að vera öruggur.
Við komumst ekki í þetta sinn – en gerum það bara næst.
Það er reyndar hægt að fara og sigla í kring…en ég sá ekki alveg tilganginn með því.
Annars er ágætis útsýni á eyjuna ef veður leyfir og létum við það duga í þetta sinn.
Fórum í bíó í gær að sjá myndina Paul sem reyndist hin besta skemmtun. Myndin er um vinalega geimveru sem verður innlyksa á jörðinni í einhverja áratugi. Vill svo fara að komast heim og fær til þessa aðstoð tveggja vina frá Bretalandi sem eru á ferðalagi um Bandaríkin. Inn í þetta fléttast fleiri skemmtilegir karakterar og allt endar vel.
Myndin var bönnuð innan 16 hérna…var bönnuð innan 13 í Seattle ( vorum að hugsa um að fara á hana þar un daginn ). Ég veit svo sem ekki af hverju…kannski af því að F-orðið kom fyrir nokkrum sinnum…en það var allt og sumt. Og svo sást í rassinn á geimveru…gæti verið ástæðan…
Sofnaði reyndar aðeins – en það var bara af því ég var búin að labba allan daginn!
Ótrúlega gott að dotta aðeins í bíói eftir langan dag….fórum ekki á myndina fyrr en hálfellefu þannig að….
Áður en við fórum í bíó, fórum við og fengum okkur ágæta steik á John´s Grill.
Virðist ansi þekktur staður – og gamall. Einhverjar senur í Möltufálkanum virðast hafa átt að gerast þarna, þó svo líklega hafi þær verið teknar upp í Hollywood. Allir veggir eru hlaðnir myndum af leikurum og fleiri þekktum andlitum sem hafa borðað þarna í gegnum tíðina.
Maturinn var ágætur – steikin fín, meðlætið kannski ekki eins spennandi ( uppþornuð bökuð kartafla og ofsoðnar belgbaunir )….Maturinn kom hratt og örugglega og við náðum í bíó sem var þarna rétt hjá. Allir glaðir:)
Var mun ánægðari með matinn í kvöld.
Datt inn á stað rétt við Union Square sem heitir E&O Trading Co. Gat eiginlega EKKERT sett út á hann – sem er mjög óvanalegt af mér!
Maturinn var frábær – andrúmsloftið afslappað – innréttingarnar skemmtilegar….og reikningurinn ekkert alltof hár. Maturinn var reyndar alveg svakalega góður – og mun meira spennandi en á mörgum stöðum sem þykjast setja markið hátt. Sá reyndar á glugganum að þeim hafa áskotnast ýmsar viðurkenningar á þeim þrettán árum sem staðurinn hefur verið starfræktur – en það virðist ekki hafa stigið þeim til höfuðs ennþá allavega.
Pantaði Edamame baunir á undan, Crab Dip og Dumplings með rækjum og svínakjöti.
Kári elskar Edamamebaunir – finnst gaman að tína innan úr þeim. Ef hann fengi að ráða, væru þær alltaf með öllum mat.
Dumplingarnir ( íslenska nafnið er ekki alveg að koma hjá mér…hvað heita dumplings á íslensku? Man það einhver? ) voru mjög góðir.
Miklu betri en annars staðar sem ég hef prófað þá. Eiga það til að vera alltof “linir” einhvern veginn finnst mér – stundum minna þeir mig bara á ofsoðið pasta – en þessir voru fullkomnir.
Og aðalréttirnir…Pantaði “Oolong te önd” með “taro-rótarmauki” og sítrus og möndlumarmelaði…
og “Satay – platta” með kjúkling, rækjum og portobellosveppum…Sataysósan var guðdómleg sem og magngósósan sem kom líka með.
Pumpaði þjóninn um hvað fleira væri í henni og það er ekki spurning með hvaða tilraunamennsku ég ætla að leggjast í þegar ég kem heim…
Fórum sem sé sátt og sæl af þessum stað – sem ég verð að segja að ég er ánægðust með af þeim stöðum sem ég hef farið á í þessari ferð hingað til.
Klukkan er rétt að verða miðnætti hér núna. Er með alveg fulla myndavél af myndum.
Þær verða að bíða betri tíma….Set einhverjar skemmtilegar myndir hér inn á morgun.
Vona að veðrið verði eins gott og í dag. Sól og blíða á þessum fyrsta sumardegi.
Lenti á spjalli í strætó í dag við mann frá Vín sem hefur búið hér í einhverja áratugi.
Hann sagði að veðrið hér færi kólnandi með hverju árinu – og að 2-3 sólardagar í röð þættu gott.
Annars væri hér oft mikil þoka yfir öllu – jafnvel um hásumar.
Vona að við verðum heppin….