Ókum þjóðveg 1 frá San Francisco og niður til Santa Monica.
Það er hægt að velja um nokkra vegi hingað niðureftir – tókum leiðina meðfram sjónum.
Það er líka hægt að fara hraðbrautina, en þá missir maður af öllu….
Héldum sem sé af stað hingað á sunnudagsmorgun. Ákáðum að vera ekkert að flýta okkur – enda algjör óþarfi. “Áðum” á tveim stöðum. Fyrri nóttina vorum við í Carmel. Þar var Clint Eastwood bæjarstjóri frá ´86 – ´88.
Það eru ýmis skrítin lög þarna – skilst að skilti megi ekki vera áberandi og eins hefur “keðjum” verið haldið markvisst frá bænum. Sé svo þegar ég fletti bænum upp á Wikipedia að það má ekki heldur vera í háhæluðum skóm án sérstaks leyfis! Bærinn er ekki stór – húsin lágreist og öll í sama stíl. Allt er voðalega “sætt” og huggulegt og ströndin er mjög falleg. Vorum á skemmtilegu litlu hóteli sem heitir Pine Inn Herbergið var þægilegt og rúmgott. Það voru þrjú sjónvörp á herberginu – þar af eitt inni á baði….baðkarið var þægilegt nuddkar, þannig að það var auðvelt að soðna þarna yfir sjónvarpinu og láta þreytuna líða úr sér eftir aksturinn.
Næsta dag ókum við til Santa Barbara ( bæjarins – ekki þáttarins það er að segja). Það var aðeins lengri akstur en fyrri daginn. Komum við í Monterey og eins í Solvang.
Santa Barbara er skemmtilegur bær – mikill ferðamannabær en þó ekki eingöngu. Það eru greinileg spænsk áhrif þarna – eins og reyndar víða hér í Kaliforníu. Húsin eru undir spænskum áhrifum og eins götunöfnin. Gistum á skemmtilegu litlu hóteli sem heitir Inn Of The Spanish Garden og er staðstett miðsvæðis.
Komum rétt aðeins við á tveim stöðum á leiðinni – annars vegar Monterrey og hins vegar Solvang.
Monterey er skemmtilegur gamall bær – þekktur fyrir sardínur og skáld….og ýmislegt fleira.
Solvang er svo aftur danskur bær. Mjög fyndið að koma þangað….Eins og að koma í litla útgáfu af Kaupmannahöfn einhvern veginn…svona “fullorðins-Lególand”. Bakkelsið í bakaríunum var mjög “íslenskt”. Sérbökuð vínarbrauð, snúðar og franskar vöfflur. Og það voru hlutfallslega mörg bakarí – og öll eins – alveg eins og á Íslandi.