Hér koma tvær “pottþéttar” hugmyndir að því hvað hægt er að gera til að láta tímann milli 5 og 7 að morgni líða þegar maður er andvaka….
Ætlar að reynast dálítið erfitt að snúa sólarhringnum við eftir ferðalagið….
Möndlumjólk:
1 bolli af möndlum með hýði
2 bollar ískalt vatn ( eða 1 og 1/2 bolli vatn og svo vatnið af döðlunum )
5 steinlausar döðlur ( sem ég lagði í bleyti í gærkvöldi í smá vatni – nota vatnið af þeim upp í þessa 2 bolla ).
Ég lagði möndlurnar í bleyti áður en ég fór að sofa ( það er að segja áður en ég reyndi að fara að sofa ).
Það er nóg að hafa þær í bleyti í 2-3 tíma…má samt alveg vera lengur – verður bara auðveldara að ná hýðinu af ef það er lengur ( það er að segja ef maður nær að sofna nógu lengi ).
Síðan tók ég hýðið af og setti þær í blandara ásamt vatninu.
Því næst sigtaði ég þetta í gegnum fínt sigti. Má líka vera í gegnum klút.
Jafnvel er gott að sigta þetta tvisvar. Það sem verður “afgangs” er svo ljómandi gott…nokkurs konar möndlujógúrt.
(Má líka nota það í alls kyns bakstur – meira um það síðar )
Þetta er ágætis verkefni ef maður er andvaka….
Það að flysja möndlurnar virkar því miður ekki eins vel og að telja kindur eins og ég var að vona.
Hins vegar veit ég að þetta verður ágætis grunnur í morgunsjeik.
Morgunsjeik:
1 bolli möndlumjólk
1 banani
1 msk hrátt kakóduft
Hvað annað getur maður tekið sér fyrir hendur á andvökunóttu?
Jú….ég er að afþíða frystinn.
Það er ekki eins svakalega spennandi og það hljómar….
Sit hérna núna með sjeikinn minn tilbúinn.
Núna er bara að bíða eftir að frystirinn afþiðni nóg til að ég geti hafist handa!
Ég ákvað að birta ekki myndir af þessu – þið verðið bara að nota ímyndunaraflið…