Fljótlegasti “mexíkóski” matur í heimi…og hægt að eiga flest allt til í skápnum.
Henti þessu saman hérna í gærkvöldi. Var ekki í miklu eldastuði og í enn minna stuði til að fara út í búð.
Mesti tíminn fer í að þrífa matvinnsluvélina þarna baunamauksins og avókadósins…
Ætli þetta taki ekki 10 mínútur allt í allt.
Baunamauk:
1 dós af svörtum baunum
smá sletta af ólívuolíu
svartur nýmalaður pipar
nokkur korn af maldonsalti
Opna dósina – skola baunirnar – allt saman í matvinnsluvél.
Avokadómauk:
2-3 avókadó
smá sletta af ólívuolíu
dash af tabasco-sósu
1/2 tsk ca af sætu paprikudufti
safi úr 1 lime
nokkur korn af maldonsalti
Taka utanaf avókadóinu og setja í matvinnsluvélina- setja restina af hráefninu í matvinnsluvélina – snúa takkananum og vavúmm….
Smjörsteiktir kastaníusveppir:
Kastaníusveppir
Smjör
Skera sveppina niður og steikja þá á pönnu úr smjörinu ( en það segir sig svolítið sjálft…er það ekki? )
Tómatar
Var með góða lífræna plómuberjatómata…en hvaða góðu tómatar sem er duga.
Skera þá smátt….eða bara eins og maður vill!
1 dós af pintobaunum…eða önnur dós af svörtum baunum….
Rifinn Cheddar ostur
Tortilla kökur
Svo er bara að raða þessu saman. Vissulega má fara útí það að gera þetta flóknara – leggja meira í guacamole-ið…gera tómatsalsa….elda baunirnar….
En þetta var bara ljómandi gott svona og tók engan tíma. Líka vel hægt að leyfa börnunum að hjálpa til við þetta – eða láta unglingana bara sjá um matinn;)
Eina “eldamennskan” í þessu er í rauninni bara sú að hita tortilla kökurnar á heitri pönnu áður en maður raðar á þær.