Alvöru Kauphöll með fé á fæti

Haustið 2008 – þegar allt “hrundi” hér á landi – fékk ég smá hugmynd.
Mér datt í hug að besti staðurinn til að byrja á væri landbúnaðarráðuneytið.

Ég hélt á fund þáverandi landbúnaðarráðherra, með það fyrir augum að benda á þá möguleika sem þetta hefði í för með sér – hversu mikil tækifæri lægju hér í aukinni framleiðslu matvæla og eins matarferðamennsku.

Ég hef alltaf séð fyrir mér byggingu, sem myndi þjóna þeim tilgangi að vera jafnt vettvangur smærri sem stærri framleiðenda og bænda – til að koma sinni vöru á framfæri og í sölu.

Hús sem þetta myndi nýtast undir ráðstefnur og sýningar tengdar mat og matvælaframleiðslu og gæti verið miðstöð sem styrkti tengingu milli neytenda og framleiðenda, ásamt því að vera mikilvægur og skemmtilegur áfangastaður fyrir þá ferðamenn sem sækja landið heim.

Eftir þessa kynningu mína á hugmyndinni, fékk ég það svar – eða réttara sagt þá spurningu – hvort það væri ekki vísir að þessu í Kolaportinu og hvort það væri ekki nóg.

Ég fór næst á aðalfund samtakanna Beint frá býli.
Á þeim fundi voru staddir nokkrir bændur og heill hellingur af hagsmunaaðilum frá hinum ýmsu stofnunum innan “bændabatterísins”.

Ég varð þess fljótt áskynja að þarna væri ég ekki að fara að finna mikinn hljómgrunn.
Það var meira að segja mikið gert í því að reyna að hindra það að ég segði frá þessum hugmyndum mínum fyrr en bændurnir væru farnir. Grínlaust! Slíkur var óttinn við það, að þarna væri farið að sá einhverjum “hugmyndum” í kollinn á fólki. Það var algjörlega ótrúlegt að verða vitni að þessum vinnubrögðum og jafnframt mjög lærdómsríkt.

Vissulega sá ég að það vaknaði áhuga hjá þeim bændum sem þarna voru staddir, en þeir virtust margir hverjir hræddir við að stíga fram og vera sammála. Margir höfðu samband við mig eftir á og ég lærði heilan helling af þessu brölti mínu um það hvernig málum er raunverulega háttað og af hverju staða landbúnaðarmála á íslandi er í eins hörmuleg og hún er.

Það kom til mín bóndi eftir fundinn sem leist mjög vel á hugmyndina og vildi endilega skoða málið betur. Hann var svo síðar kallaður fyrir og honum var tjáð að annað hvort ynni hann með “þeim” eða “þessari manneskju”. Hann væri “á gráu svæði”.

Það var mjög fróðlegt að skoða uppbygginu þessa landbúnaðarkerfis og læra af því hvar fyrirstöðurnar liggja. Þær virðast greyptar í kerfið og halda fastataki á því með aðstoð ýmissa smákónga sem hafa fengið að stækka nógu mikið til að styggja ekki þann fyrir ofan sig, en samt nógu mikið til halda þeim fyrir neðan sig á sínum stað. Allt frumkvæði er litið hornauga og talið líklegt til að skaða kerfið.

Ég skil heldur ekki þessa óskiljanlega tilhneigingu að líta á landsbyggðina og borgina sem algjörlega sitthvorn hlutinn. Slíkt er einungis til þess fallið að ýta undir fordóma hvors í annars garð.

Hver var ég að koma og segja bændum hvað væri ráð að gera – hvað vissi ég um málin, komandi úr Reykjavík? Þetta virðist vera alltof algengt viðhorf og ekki til þess fallið að ýta undir nokkra framþróun. Við erum jú öll hluti af einni heild og þurfum á hvort öðru að halda. Þannig ætti þetta að virka. Það er sorglegt þegar hroki og eiginhagsmunasemi byrgir mönnum sýn og stendur í vegi fyrir framförum.

Ástæða þess að ég er að vekja máls á þessu, er sú að núna er komin starfsemi í svipuðum dúr og sú sem ég sá fyrir mér í Kaupmannahöfn og það er von á annari í Osló.
Þetta er svo sem ekkert nýtt fyrirbæri. Það má benda á Saluhallen í Stokkhólmi og eins má finna slíkar byggingar í flestum borgum heims – amk í einhverju formi.

Mikið væri nú gaman ef þessi frétt hefði verið um opnun slíkrar byggingar á Íslandi.

Advertisements