….og svo ein með sjávarréttum….og já…önnur bara með grænmeti…
Sannkallaðar “naglapizzur”:)!!!
Það er einfalt of fljótlegt að baka pizzu.
Fyrir utan það hvað heimabakaðar pizzur er mikið betri, ódýrari og já – hollari – en pantaðar pizzur. Allavega geta þær verið það.
Svo er líka ágætt að baka pizzur á dögum sem maður nennir ekki í búð og veit ekki almennilega hvað mann langar í. Pizza er náttúrulega upphaflega “fátækramatur” og leið til að nýta upp afganga.
Ég á reyndar alltaf ákveðna hluti hér í skápnum sem mér finnst nauðsynlegt að eiga í svona tilfellum. Góða tómata í dós, túnfisk, lauk, parmesan. Oft yfirleitt líka til rækjur í frystinum. Restin af álegginu er svo bara það sem er til hverju sinni, en það má líka alveg fara út í búð og kaupa meira!
Um daginn var ég með kálfalundir. Það voru tvær litlar lundir afgangs. Þegar ég geri pizzur, er það oft með það fyrir augum að nota upp afganga. Sérstaklega ef það er eitthvað sem ég vil alls ekki henda eins og kálfalundir. Ef ég hefði átt afgang af kartöflumúsinni sem var með þeim kvöldið áður, þá hefði hún endað á pizzunni líka.
Annars setti ég lauk, sveppi, rjómaost og kálfalundir á pizzuna. Sósu undir og ost ofaná.
Eins voru hérna tvö avókadó að þvælast, sem vildu endilega fá að vera með í pizzapartíinu.
Þau fóru á eina pizzuna og með þeim fóru rækjur, laukur og smávegis af rauðri papriku.
Ég var að spá hvort ég ætti að setja avókadóin á pizzuna áður eða eftir að hún kæmi úr ofninum. Ég hefði betur sett þau eftirá – ekki það að avókádó getur verið ágætt eldað.
Það á það hins vegar til að verða dálítið beiskt þegar það er eldað – held að það fari einfaldlega eftir tegundum og þroskastigi. Það varð örlítið beiskt í þessu tilfelli, en þið pófið ykkur bara áfram.
Svo er þarna ein með túnfisk, rækjum og þistilhjörtum. Það eru til alveg ótrúlega góð þistilhjörtu í glerglösum, sem mér finnast ómissandi á sjávarréttapizzu.
Því miður voru ekki til ansjósur í þetta sinn, annars hefðu þær lent þarna líka.
Sósuna geri ég á eins einfaldan hátt og mögulegt er.
Mér finnst gott að nota lífræna kirsuberjatómata í dós. Þeir eru sætir og góðir og ég mæli hiklaust með því að fólki prófi þá. Ég nota yfirleitt lífræna tómata í dós – þeir eru einfaldlega betri, sætari og safaríkari en aðrar tegundir sem ég hef séð hér í hillum verslana. Svo eru þeir líka á bragðið eins og alvöru tómatar – það finnst mér skipta máli:)
Og sósan er einföld:
1 dós lífrænir kirsuberjatómatar
1 krukka góð tómatpúrra
saxaður hvítlaukur – eins mikið og hver vill
þurrkað oreganó
smá maldonsalt
smá sykur – 1/2 tsk eða svo
smávegis cayenne pipar
Allt sett í blenderinn.
Sósan er tilbúin.
Svo er bara að raða saman!
Það er ágætt að vera með áleggið tilbúið áður en farið er að fletja út deigið.
Skera laukinn, sveppina og allt sem þarf að skera.
Taka upp dósirnar.
Vera með sósuna klára.
Setja ostinn í skál.
Ef maður gerir það ekki, fer einhvern veginn allt út um allt – sérstaklega ef það er lítið borðpláss.
Baka svo bara við hæsta hita þar til osturinn er gullinn!
Deigið gerir svo bara hver og einn eins og honum finnst gott.