LÚÐA Í FATI MEÐ RÓSMARÍN, LAUK OG TÓMÖTUM
Um daginn var ég með lúðu.
Stundum er þægilegt að henda lúðu (eða svo sem hvaða fisk sem er) í fat með smá ólívuolíu og svo bara því sem er til hverju sinni.
Ég velti henni uppúr ólívuolíu og sítrónu, kryddaði með maldonsalti og hvítum pipar, stakk nokkrum rósmaríngreinum undir og svo raðaði ég lauk og tómötum þar í kring.
Einfaldara getur það ekki orðið. Svo bara inn í ofn við svona 190 gráður, þar til hún er tilbúin. Ef í vafa, þá bara taka hana út og athuga. Það er langbesti mælikvarðinn.
Með þessu gerði ég smá hvítlauks og steinselju pestó.
Setti nokkur hvítlauksrif í mortélið ásamt maldonsalti og olívuolíu og maukaði.
Saxaði svo steinselju og maukaði með. Eitthvað sem klikkar ekki og er gott með ótrúlega mörgum réttum.
Með þessu voru brún hrísgrjón, sem ég sauð eins og svo oft með einum tening af grænmetiskrafti og smá smjöri.
Ég sauð viljandi mun meira af grjónum en ég vissi að myndu fara í þessari máltíð.
Það sem var afgangs var svo undirstaðan undir matinn næsta dag.
Brún hrísgjrón taka mun meiri tíma en hvít, þannig að það er um að gera að sjóða nóg fyrir tvo daga í einu og flýta þannig fyrir sér næsta dag.
TORTILLUR MEÐ HRÍSGRJÓNUM OG FLEIRA GÓÐGÆTI
Næsta dag setti ég gulrætur og smátt saxaðan shallotlauk á pönnu með smá ólívuolíu.
út í það fór rest af spínati sem var hér í ísskápnum, loks hrísgrjónin og svo ein dós af svörtum baunum.
Eina “kryddið” sem ég bætti við, var sletta af Worchestire sósu. Ég nota hana stundum til að gefa réttum smá “fyllingu” og bragð, ekki síst hrísgrjónaréttum og kjötréttum.
Tortillurnar smurði ég með rjómaosti, setti “hrísgrjónaréttinn” inní ásamt skornum tómötum, raðiði þessu svo á fat og stráði osti yfir.
Inn í ofn – bara þar til osturinn er orðinn gullinn.
Á meðan maukaði ég avókadó með gaffli, setti nokkra dropa af ólívuolíu þar útí og smá maldonsalt. Þar með var það tilbúið.
Þetta tók allt örskamman tíma og var ótrúlega gott.