Þetta krem er ekki hugsað á kökuna – það má alveg örugglega borða það og ég er alveg viss um að það er gott á bragðið… En ég er að hugsa um að bera það bara á mig frekar:)
Er búin að vera að prófa að nota kakósmjörið sem body lotion í smátíma núna, en það er bara svo þykkt og hart að ég vissi að ég yrði að gera eitthvað við það til að fá þá áferð sem ég vildi. Eftir að hafa skoðað einhverjar uppskriftir á netinu og ekki fundið alveg það sem ég var að leita að, ákvað ég að tilraunast smá og þetta er útkoman!:)
Þetta er það sem þið þurfið….
240 gr kakósmjör
6 – 8 msk sæt möndluolía ( eða bara hvaða góðu olíu sem er – t.d.jojoba olíu )
20 dropar E vítamínolía ( skellti þeim bara með víst þeir voru til. Má örugglega alveg sleppa )
Kakósmjörið hitaði ég yfir vatnsbaði ( svona eins og þegar þið eruð að bræða súkkulaði:)
Setti það sem sé í stálskál ( notaði bara hrærivélaskálina ) og setti hana yfir pott með heitu vatni.
Ég leyfði kakósmjörinu að bráðna í rólegheitum og þegar það var orðið alveg fljótandi, bætti ég restinni af innihaldsefnunum saman við. Síðan leyfði ég þessu að kólna á borðinu í smástund ( var reyndar smá óþolinmóð,þannig að ég skellti skálinni í pott með ísvatni…til að þetta kólnaði fyrr ).
Svo fór ég bara að þeyta…og þeyta…og þeyta…
Tók svo sem enga stund. Allt í einu var komið þetta mjúka og vel ilmandi krem!
Hér kemur eitt gott ráð sem kemur mér oft að óvart að allir viti ekki!
Þegar þið eruð að hita yfir vatnsbaði – hvort heldur er súkkulaði eða eitthvað annað – skuluð þið setja 2-3 bréf af eldhúspappír í pottinn með vatninu. Þannig sullast ekki uppúr pottinum og ofaní skálina;)
Það sama gildir ef þið eruð til dæmis að baka creme brulee í vatnsbaði í ofninum.
Alltaf setja eldhúspappír líka til að það sullist ekki í formin.
Hélt alltaf að allir vissu þetta, en er búin að komast að því að svo er ekki!
En aftur að kreminu….
Ef þið viljið, þá getið þið sett hvaða ilmolíu sem þið viljið útí þetta.
Mér fannst lyktin af kakósmjörinu bara svo góð, að ég er að hugsa um að ilma bara eins og súkkulaðistykki meðan ég klára úr krukkunni. Ef ég verð étin, þá verður það bara að hafa það!
Ég hugsa að það sé best að geyma þetta á frekar svölum stað – samt ekki í ísskápnum því þá verður það líklega alltof hart. Annars held ég að það komi ekki til þess að það skemmist…. Er að láta renna í baðið núna og svo verður kremið prófað. Þið verðið því að afsaka það hvað þessi færsla er skrifuð á miklum hlaupum, baðkarið er nefnilega alveg að fyllast…..