Kári fékk að ráða hvað væri í matinn í gær. Er voðalega sjaldan með kjúklingaleggi – vil heldur kaupa kjúklinginn bara í heilu og hluta hann sjálf. En allavega – stundum verður maður að leyfa öðrum að ráða:)
Hann vildi sem sé fá… “svona BBQ leggi”.
Held að barnið vilji bara að það komi sumar og sól og grillmatur,
en þetta varð allavega málamyndunin hérna í gær.
Svona gerði ég “BBQ sósuna”:)
Ég nota eldhúsvigtina mikið, enda þægilegast að setja bara pottinn á hana og byrja að mæla.
250 gr púðursykur
100 gr barley malt extract
( hvað það heitir á íslensku? “Byggextract? Allavega – fáið það í krukkum í heilsubúðum )
150 gr eplaedik
100 gr sojasósa – tamari
150 gr dijon sinnep
2 msk nýmalað kaffi ( sem sé kaffið sjálft – ekki uppáhelt, heldur bara “kaffið”)
1 tsk cayenne pipar
3-4 stjörnuanís
5-6 negulnaglar
1 kanilstöng
svartur pipar ( ca 1 tsk )
hvítur pipar ( ca 1 tsk )
maldonsalt ( ca 2 tsk )
250 gr kalt, ósaltað smjör
Setti allt nema smjörið í pott og leyfði þessu að malla í allavega 30 mínútur, eða þar til það var orðið mun þykkara. Þá slökkti ég undir pottinum og bætti köldu smjörinu útí, þannig að þetta þykknaði enn meira.
Raðaði leggjunum í eldfast mót og hellti svo sósunni yfir. Ég var með 3 pakka ( 18 leggi? ) en þetta hefði dugað vel fyrir mun fleiri leggi. Síðan setti ég þá í ofninn – fyrst á 170 gráður þar til ég taldi þá nokkurn veginn eldaða – þá setti ég ofninn á hæsta – 250 gráður – í svona 10-15 mínútur.
Þeir voru svakalega bragðgóðir og mikið “kick” í sósunni.
Það er ekki hægt að bera svona heimalagaða sósu saman við það sem þið fáið í flöskum, þannig að endilega prófið ykkur áfram – sérstaklega þegar veðrið hérna verður orðið aðeins betra og það er hægt að kveikja upp í grillinu án þess að vera í kuldagalla!!
Með þessu var ég svo með pastasalat.
Bara einfalt…pasta, tómatar, ólívur og Feta ostur.
Ekki Feta ost í olíu samt – finnst hann alltaf alveg svakalega ólystugur.
Veit eiginlega ekki hvernig nokkrum getur dottið í hug að ostur, sem hefur legið í einhverri misgóðri olíu í krukku – getur verið ætur….sem betur fer er hægt að fá hann orðið “án olíu” – bara í stórri sneið.
Hann er skárrri, þó svo hann líkist ekki alvöru Feta osti. Skil reyndar ekki hvernig hægt er að kalla þetta Feta ost. En jæja…nóg um það…hann fór í pastasalatið, ásamt góðri ólívuolíu, kalamata ólívum, Herbs de provence kryddblöndu og plómutómötum:)
One Comment Add yours