2 stórir shallotlaukar
200 gr pancetta
250 gr sveppir
300 gr aborio grjón
1 – 1,2 Lítrar gott kjúklingasoð
200 ml hvítvín
100 gr sykurbaunir
Svartur pipar
Hvítur pipar
Maldonsalt
Smjör 50 – 100 gr
Parmesan
Skar pancettað ( eða segir maður pancettuna? Æ…þið vitið hvað ég á við!! Getið líka notað beikon ef þið finnið ekki panceta ) í mjög litla bita. Setti á pönnu ásamt sveppunum, mjög smátt söxuðum shallotlauknum og sirka 50 gr af smjöri.
Leyfði þessu að malla á vægum hita, þar til laukurinn var farinn að glærast.
Þá fóru grjónin útí og loks hvítvínið.
Þegar hvítvínið var næstum gufað upp ( það er að segja, þegar grjónin voru búin að drekka það í sig og orðin vel full…), byrjaði ég að ausa soðinu hægt og rólega – bara einni ausu í einu. Það er mjög mikilvægt að setja soðið rólega útí og leyfa grjónunum að drekka það allt áður en næsta ausa fer á pönnuna….
Soðið sem ég var með í þetta sinn, var í raun soðið úr færslunni síðan í gær en hvaða góða kjúklinga eða kalkúnasoð á vel við hér.
Eftir svona 15 mínútur bætti ég sykurbaununum útí. Það má líka vel nota frosnar grænar baunir en þá er betra að setja þær aðeins síðar. Allt í allt tekur þetta svona 25 – 30 mínútur, en það verður að standa við pönnuna nokkurn veginn allan tímann. Það má líka gera þetta svona “næstum því”, slökkva undir og klára þegar gestirnir eru sestir til borðs. Það er í góðu lagi. Það er hins vegar erfitt að ætla að hita risotto upp eftir að það er tilbúið. Það bara gengur ekki!
Þegar grjónin eru klár – það er að segja, fullelduð en samt með smá biti ( og ég meina smá – má ekki vera of mikið), er slökkt undir pottinum – smjörklípu bætt saman við og helling af ferskur, nýrifnum parmesan.
Smá nýmalaður svartur pipar og voila! Tilbúið að bera á borð…með meiri ferkum parmesan að sjálfsögðu og jafnvel hvítvínsglasi:)