Að rista brauð eða að rista brauð

Það er töluvert langt síðan brauðristin mín “dó”. Ætli það séu ekki allavega 10 ár?!
Ekki það, að ég notaði hana nú ekki mikið greyið – mér finnst svo mikið betra að rista brauð bara á pönnu eða í ofni. Stundum þurrrista ég það en yfirleitt finnst mér betra að setja smá slettu af góðri ólívuolíu á pönnuna. Með áherslu á GÓÐRI.

Ég hef tekið eftir því að stundum í matreiðsluþáttum og í uppskriftum, að verið er að nota lélegri ólívuolíu í “eldamennskuna” heldur en á salöt og slíkt. Eða jafnvel að ráðlagt er að nota bara “einhverja olíu” til að steikja uppúr því að bragðið af jómfrúarolíunni komi ekki í gegn!

Þetta skil ég bara ekki. Það þarf að vera með frekar lamaða bragðlauka til að finna ekki muninn á því hvernig olía er notuð. Þær eiga vissulega báðar rétt á sér – og allar, en það skín nú yfirleitt í gegn hvernig olía hefur verið notuð.

Jæja. Nóg af tuði um olíur!

Þetta er náttúrulega sáraeinfalt en ekki verra fyrir vikið;)

Bara jómfrúarolíu á pönnuna, brauð á pönnuna…steikja…snúa…steikja….

Væn sneið af Feta osti – þessum í kubbunum, ekki í krukkunum.
Talandi um olíur – ég get ekki hugsað mér að nota Fetaost í krukkum nema í algjöru hallæri.
Ef ekkert annað er til ( því þessi í kubbunum fæst ekki alls staðar ), skola ég hann og skola til að losna við olíuna sem umlykur hann. Því miður, virðist osturinn oft hafa drukkið hana það mikið í sig að hann bragðast eins og olían sem hann lá í. Sem betur fer eru kubbarnir farnir að fást víðar, þannig að þetta er hætt að vera vandamál!

Nokkrir góðir tómatar og smávegis af vatnakarsa og hádegismaturinn er kominn.

Þessi þarna á bakvið er svo bara með hunangi og kanil. Góðu hunangi og góðum kanil það er að segja! Já – það er líka mikill bragðmunur á hunangi og kanil og alls ekki sama hvað notað er.
En ég er að hugsa um að láta vera að tuða yfir því akkúrat núna og drífa mig út í sólina svona rétt á meðan hún varir:)

Verði ykkur að góðu:)!

Advertisements