Síðasta sunnudag var ég með þetta dásamlega, mexíkanska svínarí.
Sem sé, hægeldaða svínasíðu, heimagerðar tortillur og alls kyns gott meðlæti.
Ég kíki oft upp í Kjöthöllina í Skipholti á fimmtudögum eða föstudögum, enda oft meiri tími í alls kyns “eldamennsku-dútl” um helgar. Líka meiri líkur á að plata til sín saklaus tilraunadýr ( lesist fjölskyldumeðlimir ) sem vita ekkert á hverju þau eiga von.
Í þetta sinn var ég svo heppin að það var til þessi stærðarinnar svínasíða, en svo má að sjálfsögðu sýna smá fyrirhyggju og panta svona lagað fyrirfram….
Ég hafði kjötið í ofninum í heila 7 tíma – fyrst á 150 gráðum ( í svona klukkutíma ), svo lækkaði ég hitann í 100 gráður….og setti svo hitann aftur upp í 150 gráður síðasta klukkutímann.
Ég skar rendur í fituna, kryddaði það svo vel á báðum hliðum og tyllti því svo grænmetisbeð.
Mér finnst það alltaf eina leiðin til að elda kjöt í ofni – besta “grind” sem hægt er að hugsa sér og svo gefur grænmetið kjötinu líka svo gott bragð. Að vanda var þarna laukur, sellerí og gulrætur en það læddist þarna eitt lime með líka í þetta sinn.
Sem sé – grænmetið í fat, kjötið ofaná, hella svo dálitlu vatni í botninn á fatinu þegar það er komið inn í ofn og þá getur þetta farið að gerast!
Eins og þið sjáið, þá eru laukar ágætis “stólpar” til að tylla kjötinu á;)
Ég var með frekar stórt stykki – eitthvað um 4 kíló ( reyndar á beini ) og sneri því einu sinni á meðan á eldun stóð.
Ég byrjaði á því að elda það með “á hvolfi”, sem sé með “puruhliðina” niður.
Kryddin sem ég notaði voru maldonsalt, oregano, kúmen, chilli pipar, kanill,hvítur pipar og svartur pipar.
Eins og sjá má, fer töluvert þarf töluvert af kryddi:)
Það lekur töluvert af fitu af kjötinu á meðan það er í ofninum ( sem betur fer!).
Það er ágætt að opna ofninn við og við og hella henni aðeins yfir kjötið.
Þannig verður það extra mjúkt og gott.
Eftir svona 6 og 1/2 tíma, tók ég kjötið út til að taka puruna af.
Hún var alveg ótrúlega stökk og góð og ég brytjaði hana bara í skál og hafði með svínaríinu:)
Stakk kjötinu svo aftur inn í ofninn….
Að lokum slökkti ég á ofninum og leyfði kjötinu aðeins að jafna sig þar inni áður en ég tók það út og tætti í spað. Það gjörsamlega féll af beinunum eins og sjá má
Með þessu hafði ég að sjálfsögðu tortillur
Þetta er uppskriftin af tortillunum sem ég geri vanalega ( sem sé, einföld uppskrift…)
Ég var reyndar að gera frekar margar í þetta sinn, þannig að ég þrefaldaði uppskriftina.
220 gr hveiti ( bara all purpose hveiti – finnst brauðhveiti og sterkt í þetta )
1 tsk lyftiduft
1 tsk maldonsalt
40 ml ólívuolía
120 – 150 ml volgt vatn
Svo þarf að sjálfsögðu meira hveiti þegar kemur að því að fletja þær út.
Hveiti, salt og lyftiduft sigtað saman,
Olíunni blandað vel saman við með handþeytara eða sleif.
Vatninu bætt útí rólega – eins og þarf.
Leyft að hvílast í skál undir viskastykki í 15 – 20 mínútur.
Þá eru þær flattar út og steiktar á þurri, vel heitri pönnu.
Það er ágætt að geyma þær sem hafa verið steiktar, undir viskastykki á meðan þú gerir restina. Þannig haldast þær mjúkar og kólna ekki eins hratt.
Ég gerði mjög fljótlegt salsa:
5 – 6 tómatar
1 stór laukur
3 – 4 hvítlauksrif
safi af einu lime
hellingur af ferskum kóríander
maldonsalt
hvítur pipar
Allt skorið mjög smátt, kryddað til og safinn kreistur úr lime-inu.
Blandað vel saman og leyft að jafna sig í 2 – 3 tíma í kæli.
Svo varð til þessi “sósa”…..eða hvað á að kalla þetta:)
1 dós sýrður rjómi
1/2 dós maískorn
1 grænt chilli
3 – 4 vorlaukar
fullt af ferskri steinselju
safi úr 1/2 sítrónu
maldonsalt
Þetta var alveg svakalega gott og ég á örugglega eftir að gera þetta eða eitthvað svipað aftur. Tilvalið að hafa í fjölskylduboðum þar sem allir aldurshópar koma saman.
Mín tortilla varð einhvern veginn svona…:)
Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hafa gott avókadó í svona boði.
Bara passa að kaupa það nokkrum dögum áður, stinga því í skál með banönum ( þannig þroskast það fyrr ) og kreista svo sítrónu yfir um leið og það er skorið
( þannig að það verði ekki brúnt ).
Verði ykkur að góðu!!:)
One Comment Add yours