Það verður að segjast eins og er, að maturinn í Grikkandi er alveg afskaplega góður.
Hann er einfaldur, en hráefnin sem eru notuð eru alveg sérlega góð.
Flestir veitingastaðir eru með nokkuð svipaðan mat á matseðlinum og að sjálfsögðu er hann misjafn eftir stöðum. Á einum stað er besta moussakað, á öðrum besti grillmaturinn og svo framvegis.
Gyros og souvlaki eru “skyndibitarnir” hér og hægt að fá víða.
Afgreiðslan er yfirleitt fljót og þetta er ódýr og góður matur.
Annars er venjan í grísku borðhaldi að panta alls kyns rétti á borðið og svo fá sér allir af því sem þeir vilja.
Grikkir panta yfirleitt frekar of mikið en of lítið af mat, þannig að oft eru borðin drekkhlaðin af alls kyns réttum. Það er mikið um grænmetisrétti og að sjálfsögðu er kjöt eða fiskur, oft bæði.
Þeir eru samt ekkert að flýta sér – börnin fara bara að leika sér þegar þau eru búin og fullorðna fólkið situr eftir og spjallar og borðar í rólegheitum. Það má segja að grískt borðhald sé frekar afslappað.
Kvöldmaturinn er oft frekar seint, enda er hádegismaturinn frekar seint líka.
Og svo eru allir búnir að leggja sig yfir miðjan daginn, þannig að það er nóg orka til, til þess að vaka svolítið frameftir.