Xoriatiki er það sem kalla má “grískt salat”. Það “gríska salat” sem fá má víða á veitingastöðum um heim allan er ekki endilega alltaf það sama og gríska salatið á Grikklandi, þó svo það eigi Fetaostinn, tómata og gúrkur yfirleitt sameiginlegt.
Á Grikklandi er þetta hins vegar kallað xoriatiki/horiatiki eða “sumarsalat”.
Það er misjafnt eftir stöðum hvernig það er nákvæmlega, en það eru allavega alltaf tómatar, gúrkur, rauðlaukur og ólívur eða kapers. Oft er líka paprika – annað hvort græn eða gul.
Helling af góðri, grískri ólívuolíu hellt ofaná….
Síðan er að sjálfsögðu væn sneið af Feta osti.
Eða bara góðum “lókal” osti. Hér gera margar fjölskyldur og veitingastaðir sína eigin osta.
Þeir eru yfirleitt góðir, en samt verð ég að játa að ef það er of mikil geitamjólk í þeim, þá er ég ekkert áfjáð í að klára þá….. En það er bara smekksatriði;)
Hvernig ætli þetta hafi byrjað?
Einhvers staðar las ég fyrir löngu síðan að eftir ferðalög til Grikklands hafi fólk farið að biðja um “grískt salat” á veitingahúsum í sínum heimalöndum. Síðan hefur uppskriftin eflaust eitthvað skolast til, þannig að til urðu alls kyns útgáfur. Skrítnast finnst mér alltaf að fá kál í einhverju formi í grísku salati á veitingahúsum. Það passar einhvern veginn ekki í grískt salat…..
Í “gamla daga” var víst siður hér að fá sér saltaðar gúrkur, tómata, fetaost og brauðbita eftir langan dag við sveitastörfin. Með þessu var höfð ólívuolía og brauð og örugglega drukkið Raki eða Ouzu.
Verði ykkur að góðu!:)
Bravo, Sigurveig. Þafma!
LikeLike