Í minningu Litlu Rauðar

Litla Rauð hefur nú hafið sína hinstu ferð.

Þessa dyggi ferðafélagi hefur verið með mér í að verða 20 ár og farið með mér víða á þessum árum.
Alltaf hef ég glaðst jafn mikið þegar hún hefur skilað sér af færiböndum flugvalla.
Aldrei hefur hún týnst eða verið sein.

Ég man á fyrstu ferðum okkar Litlu Rauðar, þegar hún var ein af fáum rauðum töskum á færiböndunum.
Það má segja að hún hafi verið dálítið á undan sinni samtíð, því fyrir svona 10 árum fóru margar ferðatöskur að vera rauðar þannig að erfiðara varð að finna Litlu Rauð.

Þegar ég “fjárfesti” í Litlu Rauð, var ég á ferðalagi á Ítalíu með móður minni, sem ég man að reyndi mikið að fá mig til að kaupa frekar ódýrari tösku en Litlu Rauð.

Hún sagði mér að svona töskur dyggðu skammt, þannig að það væri alveg eins gott fyrir mig að kaupa bara ódýra tösku sem ég gæti notað bara í nokkrar ferðir og keypt svo nýja þegar þar að kæmi.

Móðir mín ferðast líka frekar mikið og það eru ófáar ferðatöskurnar sem hún hefur þurft að kaupa sökum brotinna hjóla á ferðum sínum.

En alltaf dugði Litla Rauð.

Hún hefur farið í flestar heimsálfur – átti bara Ástralíu eftir.
Hver veit hvað orðið hefði, hefði hún bara reynt að tóra nokkur ár í viðbót?

Það er mjög viðeigandi að hún skuli enda ferðalag sitt aftur á Ítalíu.
Nánar tiltekið í Róm. Á Ítalíu kynntumst við og á Ítalíu kveðjumst við.

Banameinið var brotinn rennilás. Það er dálítið síðan hann byrjaði að bila og einhvern veginn varð þetta bara verra og verra þar til loks nú fyrir nokkrum dögum við sáum fram á að ekkert yrði við þessu gert.

Þess ber að geta að margar töskur hafa bæst í fjölskylduna á þessum árum.
Minnisstæðust er mér taska sem átti að vera svo sterk, að hún átti gjörsamlega að þola ALLT.
Sú var víst gerð úr sérstöku efni sem er einnig notað í flugvélar.
Ég taldi að það hlyti að duga eitthvað, en 2 -3 ferðum síðar var sérstaka “flugvélaplastið” brotið og taskan orðin ónothæf.

Nú hefur ný taska tekið við hlutverki Litlu Rauðar.
Hún hefur ekki enn fengið nafn, en hún er appelsínugul.
Hún er aðeins stærri en Litla Rauð, þannig að ein hugmyndin var sú að setja bara Litlu Rauð ofan í hana þannig að við þyrftum ekki að kveðjast alveg strax:)

Hún er af sömu gerð og Litla Rauð – Samsonite – og ég hlakka mikið til að eiga ánægjuleg ferðalög með henni. Ég mun samt alltaf sakna Litlu Rauðar, míns dygga ferðafélaga.

Advertisements