Ég náði mér í þessa frábæru murtu í dag. Já – ég veit – það er dálítið oft murta í matinn.
Eða silungur. Enda alveg ótrúlega góður matur – finnst mér allavega.
Ég ákvað að hafa hana heila í þetta sinn, frekar en flakaða.
Hreinsaði fiskinn vel og saltaði hann að innan með dálitlu sjávarsalti og hvítum pipar.
Saxaði steinselju og shallotlauk smátt.
Reif sítrónubörk og sleit nokkur timianblöð af greinunum.
Útí þetta fór þurrkað oregano, sjávarsalt og malaður hvítur pipar, ásamt dálítilli jómfrúarolíu og safanum úr einni sítrónu.
Síðan setti ég þetta innan í fiskinn og eitthvað ofaná.
Meira sjávarsalt og hvítur pipar yfir allt og svo inn í vel heitan ofn.
Þar var þetta í svona 20 mínútur held ég. Tók ekki tímann nákvæmlega – en þetta tekur enga stund.
Kartöflurnar voru þá komnar vel áleiðis.
Byrjaði á því að sjóða þær í 5-6 mínútur.
Bræddi 2 kúfaðar matskeiðar af andafitu í potti og skellti kartöflunum útí.
Síðan fór þetta í fat, fullt af sjávarsalti yfir og eitthvað af hvítum pipar.
Fór inn i vel heitan ofninn þar til þær voru orðnar vel stökkar að utan.
Ég ætla ekki að segja ykkur hvað þetta var gott…
Eða jú annars – ég ætla að segja ykkur það.
Þetta var alveg ótrúlega gott, enda hráefnin fyrsta flokks.
Ef þið bara vissuð hvað var í desert…
Segi ykkur það kannski á eftir eða á morgun.
Verði ykkur að góðu:)