Ég fékk þennan fallega blómkálshaus um helgina og er nokkuð viss um að hann á eftir að koma töluvert við sögu í vikunni!
Ég tók hluta af honum – um 600 grömm – og sauð í blöndu af mjólk og kjúklingakrafti.
Fyrst skar ég hann í smærri bita – 600 grömmin það er að segja – og skellti í pott með einni matskeið af smjöri (ósöltuðu að sjálfsögðu – nota það bara, þar sem ég vil fá að ráða saltmagninu sjálf!) og örlitlu sjávarsalti.
Leyfði því að drekka smjörið aðeins í sig og bætti þá 300 ml af mjólk og 400 ml af kjúklingakrafti saman við, ásamt 2 mörðum hvítlauksrifum.
Pipraði aðeins með hvítum pipar og leyfði þessu að malla á miðlungshita þar til blómkálið var orðið vel mjúkt.
Þá maukaði ég allt með töfrasprota. Þurfti reyndar hvorki að salta það né pipra meira í þetta sinn, en það er um að gera að smakka það til og sjá hvort þess þurfi.
Næst fann ég einn einmana púrrlauk í ísskápnum.
Skar hvíta hlutann í þunnar sneiðar og setti í pott ásamt 1 msk af smjöri, örlitlu sjávarsalti og nægu vatni til að sjóða hann. Lét það bara rétt fljóta yfir.
Sauð púrrlaukinn þar til hann var orðinn vel linur og leyfði honum þá að leika sér aðeins í smjörinu sem eftir var í pottinum;)
Þegar ég hætti mér út áðan í rokinu, var einn af fáum viðkomustöðum mínum fiskbúðin.
Þar sem ég vissi ekkert hvað ég ætlaði að fara að elda, valdi ég þorsk.
Hann er svo ótrúlega þægilegur matur sem hægt er að elda á svo margan hátt.
Reyndar finnst mér hann alltaf bara bestur léttsteiktur, rétt dýft ofan í saltað og piprað hveiti og síðan steiktur á pönnu úr blöndu af ólívuolíu og smjöri.
Síðan setti ég þetta í grunna skál – blómkálsmúsina neðst, þorskinn þar ofan á og púrrlauk yfir allt.
Einfalt og gott.
Verði ykkur að góðu:)