Brokk-blóm-lasagna-gratín….eitthvað…

Er þetta gratín? Eða lasagna? Kannski “gratagna? Skiptir ekki máli hvað þetta er kallað – þetta var gott.

Ég sagði ykkur frá blómkálshausnum stóra fyrr í vikunni og að hann myndi koma eitthvað meira við sögu.
Sem hann og gerði – þó ekki í eins miklu magni og á horfðist, sökum silunganna allra sem syntu hér um síður…

Við erum að tala um það stóran blómkálshaus, að mig var farið að gruna að hann yrði hér að eilífu.
Einhvern daginn hér í vikunni horfði ég á hann og ég get svo svarið það, að mér fannst hann bara hafa stækkað ef eitthvað…

Jújú. Mér finnst blómkál alveg fínt, en ég held að ég kaupi aðeins minni haus næst.
Eða ekki – ég er ekki frá því að ég nái mér bara í alveg jafn stóran, en breyti hluta af honum í “pikkles”.

Allavega. Kom hérna heim pínu þreytt eftir daginn og var engan veginn að nenna að koma við í búð.
Ég hugsaði reyndar útí það að líklega væri einfaldast að ná í góða nautalund og gera “föstudagsmat”, en var bara dálítið sein fyrir þannig að það verður að bíða betri tíma.

Ég elska gott kjöt – en einhvern veginn hef ég alveg gleymt að borða það í smá tíma núna.
Málið er það, að ef ísskápurinn er fullur af grænmeti – þá liggur einhvern veginn beinast við að nota það;)

Ég held að ég verði samt seint grænmetisæta, þó svo ég borði vissulega mikið af grænmeti.
Mér finnst góð steik einfaldlega og GÓÐ til að ég gæti það. Svona stundum allavega;)

Aftur af blómkálshausnum. Og brokkolíinu. Það var líka til töluvert af því.

Fann einhverja ostafganga – þarna var eitthvað af lasagnablöðum svo fann ég einn lítill gráðostur.

Það fór að fæðast hugmynd – vissulega ekki mjög föstudagsleg samt.

250 gr blómkál
350 gr brokkolí

600 ml mjólk
50 gr smjör
50 gr hveiti
Sjávarsalt
Hvítur pipar
Múskat
50 gr ostur ( gouda minnir mig – búin að henda pakkanum…)
50 gr parmesan

5 lasagnablöð

125 gr gráðostur
Hellingur af brauðraspi (panko)

Vatn og salt í pott. Blómkál og brokkolí útí um leið og suðan kemur upp.
Það syndir það í 4-5 mínútur áður en því er hent í sigti og snöggkælt – með köldu vatni að sjálfsögðu (til að stöðva suðuna það er að segja…).

Mjólk hituð í skaftpotti. Smjör brætt í öðrum potti og hveitinu stráð yfir smjörið=smjörbolla.
Mjólkinni hellt útí smjörbolluna, hrært vel og leyft að þykkna.
Saltað (ekki mikið því osturinn er saltur) og piprað og síðan er múskati bætt saman við.
Ég nota alltaf nýrifið múskat – ber það ekki saman við þurra múskatið sem er búið að liggja í hillum einhvers staðar…en…bara smekksatriði.
Nei – reyndar ekki. Nýrifið múskat er einfaldlega mikið bragðbetra.

Osturinn rifinn og honum bætt útí – öllu nema gráðostinum það er að segja.

Svo er þessu raðað…

Eldfast mót smurt með smá smjöri.

Blómkáli og brokkolí raðað á botninn.

Helmingnum af bechamel-ostasósunni hellt ofaná.

Lasagnablöð ofaná það.

Síðan meira blómkál og brokkolí.


Næst meiri ostasósu og síðan er gráðosturinn mulinn yfir þetta.

Helling af brauðraspi stráð yfir og inn í ofn.

Þetta var svo í ofinum við 180-190 gráður í tæpar 50 mínútur.

Þetta kom mjög vel út – verð bara að játa það.
Held samt að ég sé búin að fá blómkálsskammtinn minn fyrir mánuðinn – eða ekki…
Kemur í ljós! Ég er enn að spá í að “pikkla” meira blómkál hérna fljótlega þannig að…..

Verði ykkur að góðu:)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s