Kjúlli í Goa skapi

Það var dálítill Goa fílingur í þessu – sætt og suðrænt:)

Það er svo auðvelt og einfalt að henda í karríblöndur, fyrir utan það hvað það er miklu bragðbetra að gera sínar eigin úr ferskum hráefnum.
Karrí og karrí er sko alls ekki það sama.
Karrí þýðir í raun bara “bragðmikil sósa” og það er um að gera að leika sér helling með kryddin.

Það er hægt að blanda alls kyns hráefnum saman við og hafa karríið eins sterkt, bragðmikið eða sætt og hver og einn vill. Þetta eru alls engin geimvísindi.

Bara spurning um að prófa sig áfram og muna að velja alltaf bestu fáanlegu hráefni og krydd.

En aftur að uppskriftinni – sem er í einfaldara lagi.
Þessi útfærsla er ekki of sterk, eiginlega meira í sætari kantinum þótt hún sé bragðmikil.

Uppáhaldsleikfangið mitt, mortelið, fékk að vinna mestu vinnuna.

Lét dálítið af kryddi í það og malaði…

2 tsk heill kóríander
1 tsk heill svartur pipar
1 tsk heil kúminfræ
1/2-1 tsk turmeric
2 þurrkuð rauð chilli
1 tsk sjávarsalt

2 hvítlauksrif
Smábiti af engifer
– rifinn útí kryddblönduna
1 lime – safinn kreistur og börkurinn rifinn útí.
Ólívuolía – svona 2-3 msk
2-3 msk tómatpúrra

Annað sem fór í réttin var…

4 kjúklingabringur – var með ósprautaðar sem eru minni en aðrar kjúklingabringur og betri finnst mér.
Aftur á móti minnka þær ekki við steikingu eins og þessar sprautuðu.
1/2 dós af ananas – má alveg vera heil, var bara með hálfa;)
12-15 nýuppteknar kartöflur – taldi þær ekki, en hafði þær svona til helminga við kjúklinginn.
1 dós kókosmjólk
1 laukur

Fyrst malaði ég kryddin aðeins, bætti þá hvítlauk, engifer og restinni af hráefnunum saman við og velti síðan niðurskornum kjúklingabringum upp úr þessu.
Leyfði þessu að liggja þar í svona klukkutíma.

Á meðan sauð ég nýuppteknar kartöflur og skar 1 lauk smátt.

Laukinn glæraði ég aðeins á pönnunni í ólívuolíu og bætti síðan kjúklingnum saman við.

Þegar hann hafði eldast aðeins á öllum hliðum, bætti ég kókosmjólkinni og soðnum kartöflunum útí og leyfði þessu að malla í 10-15 mínútur á vægum til miðlungshita eða þar til sósan hafði þykknað töluvert og kjúklingurinn var tilbúinn. Þá fann ég hálfa dós af ananas sem ég bætti útí – skar ananasinn í bita, bætti honum á pönnuna og hellti safanum af ananasinum útí líka.

Verði ykkur að góðu:)

2 Comments Add yours

  1. Sveinrún Bjarna says:

    Mjög girnilegt,er ákveðin í að prufaðu þessa uppskrift,líst svo ansi vel ã kryddblönduna hjã þér;)

    Like

    1. Sigurveig says:

      Takk fyrir það:) Hlakka til að heyra hvernig smakkast. Svo má líka vel sjóða hrísgrjón og hafa með til að gera réttinn enn matarmeiri. Bestu kveðjur:)

      Like

Leave a comment