Þessi varð til hérna fyrr í dag.
Hún er hveitilaus, smjörlaus, eggjalaus, mjólkurlaus, nokkurn veginn alveg sykurlaus.
Eiginlega bara allslaus en samt alveg ferlega góð…
Botninn er stökkur og sætur, súkkulaðifyllingin mátulega mjúk og svo eru bananarnir þarna á milli….
Þessi getur engan veginn farið í hópinn með þessum “meinlætalegu” sem ég geri stundum.
Held að ég verði bara að gera sér flokk fyrir “allslausar”:)
Í botninn fór…
100 gr ristaðar hesilhnetur
30 gr kakósmjör
30 gr pálmasykur
Malaði hesilhneturnar fínt og bræddi kakósmjörið í skaftpotti.
Bætti möluðu hesihnetunum svo í skaftpottinn ásamt pálmasykrinum og klessti þessu svo í form.
Hafði frekar þunnt lag af botninum – finnst það yfirleitt betra.
Lét þetta kólna í ísskápnum og gerði fyllinguna á meðan.
Það er einfalt mál að rista hesilhneturnar í ofni – passið bara að hræra í þeim á meðan þær ristast, svo þær ristist allar jafnt. Ég rista alltaf dálítið mikið af þeim þegar ég geri það á annað borð, þannig að ég á þær yfirleitt alltaf til þegar á þarf að halda.
(Það má að sjálfsögðu nota smjör og sykur í staðinn fyrir pálmasykur og kakósmjör – ekkert sem bannar það).
Fyllingin gæti ekki verið einfaldari…
200 gr dökkt súkkulaði
100 gr hnetusmjör
Bræddi súkkulaðið yfir vatnsbaði og blandaði hnetusmjörinu vel saman við.
Það má náttúrulega líka bara sleppa því að gera botninn, og gera bara Reese´s í staðinn;)
Setti banana ofan á botninn, súkkulaðiblönduna þar yfir og fleygði svo nokkrum bláberjum yfir allt.
Lét þetta stífna í ísskápnum í nokkra tíma. Held að 1-2 tímar séu samt alveg nóg.
Það er samt ágætt að taka hana út aðeins áður en hún er skorin svo hún molni ekki.
Verði ykkur að góðu:)