….heitir það annars ekki rónasteik þegar maður smyr kjötfarsi á brauð og steikir það?
Hef aldrei keypt kjötfars og mun aldrei gera það. Ekki frekar en pylsur eða bjúga.
Allavega er þetta “matur” sem kveikir ekkert svakalega í mér þegar kemur að eldamennskunni.
Ég var alveg óvanalega löt í eldhúsinu í kvöld.
Bara alls ekki að nenna neinu.
Kannski vegna þess að ég fékk alveg frábæran hádegismat.
Fór á Snaps og fékk mér steik.
Fæ mér mjög oft fisk dagsins þar og hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum með hann.
Og trúið mér – ég verð mjög oft fyrir vonbrigðum þegar ég fer á veitingastaði…
Ég er búin að borða alveg töluvert af fiski uppá síðkastið, þannig að steik var alveg málið í dag.
Kúrbíturinn sem ég notaði í síðustu uppskrift var reyndar bara hálfur kúrbítur.
Helmingurinn var eftir. Ég var búin að rífa hann á mandólíninu og salta.
Ekkert frekara “plan” var komið í gang og ég hvort eð var ekkert svöng….
Einhvern veginn endaði þetta svona.
Greip eina dós af hvítum baunum, maukaði þær með rauðlauk, hvítlauk, steinselju og kúminfræjum. Smá salt og hvítur pipar.
Fleygði kúrbítnum útí, smurði þessu á brauðsneiðar og steikti.
Þetta var bara “allt í lagi” – ekkert svakalegt eldhúsafrek svo sem, en alls ekki vont.
Það er reyndar til dálítið af gazpacho sem ég gerði hér í gær – geri alltaf stóran skammt í einu og hef svo í flösku í ísskápnum. Frábært finnst mér til að eiga í svona letiköstum!
Uppskriftina fáið þið því miður ekki strax – en kannski seinna….
Verði ykkur að góðu!!:)