Ég verð að játa, að ég er orðin frekar spennt.
Í næstu viku kemur bókin Súpur allt árið sjóðheit úr prentun!!!
Það eru sjóðheitar og seðjandi súpur í bókinni, en líka kaldar og krassandi:)
Uppskriftirnar er ég búin að vera að þróa í rólegheitum í eldhúsinu mínu og svo voru myndirnar unnar hér í haust. Þær voru allar teknar hér heima eins og myndirnar í Sultur allt árið og Hollt nesti heiman að.
Gunnar Sverrisson ljósmyndari tók myndirnar og ég stílíseraraði – sem mér finnst alveg svakalega skemmtilegt að gera líka. Salka gefur bókina út.
Ég gat ekki stillt mig um að setja inn eina uppskrift hérna neðst af sætri og safaríkri gulrótarsúpu.
Það eru alls kyns uppskriftir í bókinni.
Marrókósk kjötsúpa, ítölsk fisksúpa, spænsk skelfisksúpa, salthnetusúpa með afrísku ívafi, gúllassúpa, gazpacho, sellerísúpa, rauðrófusúpa, lauksúpa….og fleiri og fleiri og fleiri…
Bæði vetrarsúpur og sumarsúpur:)
Eins eru uppskriftir af soðum sem einfalt er að laga frá grunni.
Nú bíð ég spennt eftir að fá bókina í hendur!
Grænubauna og myntusúpa
Ítölsk fisksúpa
Sæt og safarík gulrótarsúpa
Súpan ef frekar mild, þannig að endilega setjið meira af kryddi ef ykkur sýnist.
Samt er ágætt að byrja á því að setja bara eina teskeið af hverju, því að sjálfsögðu er alltaf auðveldara að bæta við kryddi en taka það aftur úr.
Súpan er jafnt heit sem köld, þannig að það er tilvalið að taka með sér eina krukku af henni í skólann eða vinnuna.
Uppskrift fyrir 4-5
150 gr laukur
60 gr sellerí
1 kg gulrætur
1 hvítlauksrif
2 msk ólívuolía
2 msk smjör
1 msk sykur
1 l vatn/grænmetiskraftur
100 gr basmati hrísgrjón
2 greinar timían
2 lárviðarlauf
2 dósir kókosmjólk
1 tsk kóríander
1 tsk garam masala
1 tsk kardimommur
1 tsk turmerik
Sjávarsalt
Hvítur pipar
Laukurinn er skorinn mjög smátt og settur í pott ásamt ólívuolíunni og ögn af salti.
Leyft að malla á lágum hita í 5-6 mínútur.
Selleríið skorið smátt og gulræturnar í frekar smáa bita.
Bætt í pottinn ásamt sykrinum og smjörinu.
Leyft að brúnast aðeins áður en hvítlauknum er bætt saman við.
Því næst er vatninu/kraftinum bætt í pottinn ásamt hrísgrjónunum, lárviðarlaufunum og timían.
Ef gulræturnar eru nýjar og safaríkar, er betra að nota vatn frekar en kraft til að leyfa sæta bragðinu af nýuppteknum gulrótum að njóta sín.
Leyft að malla á vægum hita, þar til bæði grænmetið og grjónin eru fullsoðin.
Þá eru lárviðarlaufin og timíangreinarnar veidd úr pottinum og súpan maukuð ásamt kókosmjólkinni.
Sett aftur í pottinn, krydduð til og hituð.
Verði ykkur að góðu:)
tessi er komin a oskalistann fyrir jol!
LikeLike
bíð spennt eftir að geta keypt bókina
LikeLike
súpubókin komin í hús, nú er erfitt að velja, allt svo girnilegt
LikeLike
Takk fyrir það kærlega:) Eitt ráðið gæti verið að fletta henni blindandi og athuga hvar þú lendir! Ég geri það stundum þegar ég fletti ferðabókum. Og matreiðslubækur eru finnst mér dálítið eins og ferðabækur – fara með mann í skemmtilegt ferðalag;)
LikeLike
Hvar er þessi bók til sölu ?
LikeLike
Hún er því miður búin að vera uppseld í nokkur ár. Mér skilst að það séu örfá eintök til samt hjá Sölku (salka.is) sem gaf hana út á sínum tíma. Þó það fá, að hún kemur ekki upp á lista í netversluninni en gæti þó verið til.
LikeLike