Ég var búin að lofa uppskrift af þessum rétti hér fyrir ofan sem er….
Túnfiskur með kínverskri plómusósu, fennelsoðinni rófustöppu, eggaldin og rauðlauks “flögum”
En verð samt eiginlega að byrja á þessum hérna….
Léttsteiktur þorskur á fennelsoðinni rófustöppu, með “karmelliseruðum” fennel, “karmelliseruðum” perlulauk og marglitum tómötum….rauðir, fjólubláir og gulir…
…og jafnvel þessu hérna….
…Plómusultan góða….
Ég hef verið alveg ótrúlega heppin með að finna gott hráefni upp á síðkastið – enda algjörlega árstíminn til að viða að sér gjöfum jarðar!
Fennel, rófur, marglitir tómatar, sætar og safaríkar plómur, spriklandi rauðlaukar, djúsí perur…
Fann alls konar góðgæt í síðustu viku – margt af því lífrænt og mjög margt íslenskt.
Þorskurinn var sem sé hérna á föstudaginn.
Honum velti ég bara úr hveiti sem ég hafði saltað og piprað með hvítum pipar.
Ég skar fennelinn til – tók utan af honum og skar svo í fernt.
Passið að taka ekki neðan af honum, heldur látið hann haldast saman á endanum.
Setti hann í pott með…
1 msk af smjöri
1 msk af sykri
örlitlu sjávarsalti
….og setti síðan nægt vatn til að flyti vel yfir.
Perlulaukinn afhýddi ég, skar endana af og bjó svo til sömu meðferðar og fennelinn – með smjöri, sykri, salti og vatni.
Setti þetta í sitt hvorn skaftpottinn og lét sjóða vel í þessu, þar til allt vatn hafði gufað upp, laukur og fennel var orðið mjúkt og gott. Lét það þá karameliserast (Argh!!Hvað heitir það aftur? Þið vitið samt vonandi hvað ég á við!) í smjörinu og sykrinum.
Stilkarnir af fennelinu voru eftir – sem og ysta lagið sem ég tók af.
Skar það niður ásamt endanum af púrru (endanum sem maður hendir oft!) og setti í pott ásamt lárviðarlaufum, hvítum piparkornum, steinseljugrein,sjávarsalti og vatni.
Skrældi rófur og skar í bita, fleygði þeim svo í pottinn…
Þegar rófurnar voru fullsoðnar, tók ég þær úr pottinum og maukaði með töfrasprota.
Þær urðu svo mjúkar og bragðmiklar, að það kom ekki til greina að setja neitt saman við.
Fennelbragðið kom sem léttur baktónn og gaf rófugreyjunum aðra vídd!
Þar sem ég stóð og steikti þorskinn, kom ég auga á nokkra litríka tómata í skál og þeir duttu einvern veginn á pönnuna. Þorskinn steikti ég úr blöndu af ólívuolíu og smjöri. Tómatarnir fengu því sömu meðferð.
Verði ykkur að góðu:)
One Comment Add yours