Túnfiskur með fimmkrydda-plómusósu – á fennelsoðinni rófustöppu, með eggaldinflögum og rauðlauksstráum….

Vá hvað þetta var langur titill á bloggfærslu! En hvað annað getur þetta kallast??

Ég byrjaði á því að gera kryddblönduna.
Nei – plómusultuna. Best að byrja á henni.
Það má kannski segja að ég hafi byrjað á að gera rófustöppuna,
því hún var afgangur frá því daginn áður og þið finnið uppskriftina hér;)
.

Plómusultan….

500 gr plómur
300 gr sykur
safi úr einni sítrónu

Skrældi plómurnar og skar mjög smátt. Setti í pott ásamt sykrinum og sítrónusafanum og leyfði þessu að malla í 20-30 mínútur eða þar til plómurnar höfðu nokkurn veginn horfið og eftir sat ljúffeng plómusultan.

Þessi uppskrift er í bókinni Sultur allt árið – og núna er algjörlega árstíminn til að skella í krukku;)
Segi nú ekki ef þið eruð eins heppin og ég var í vikunni, að finna sætar, safaríkar og lífrænar plómur.

Ég gerði sultuna reyndar um morguninn – var vöknuð alltof snemma og farin að gera sultu og baka perupönnsur með kanil og möndluflögum….

Nú var komið að kryddunum….

3 tsk szechuan piparkorn
2 tsk fennelfræ
10 stjörnuanís (sem sé 10 stykki, ekki 10 tsk…)
15 negulnaglar
1 kanilstöng

Og þar með er komin klassísk 5 krydda blanda, ættuð frá Kína.
Uppskriftin er mun stærri en þið munuð þurfa í þetta, en það má nota þetta í ýmislegt annað.

Szechuan piparkornin og fennelfræin ristaði ég á þurri pönnu.
Tók þau af þegar þau voru aðeins farin að “poppast”.

Setti í malarann minn (getið notað kaffikvörn ef þið eruð ekki með malara á matvinnsluvélinni) og malaði!

Reyndar var köttur hér fyrir utan gluggann þegar ég tók myndina – sem var mjög forvitinn.
Ég er ekki frá því að hann hafi malað aðeins líka….

Nú var komið að sósunni…

Setti tæp 200 gr af plómusultunni í pott, bætti við 3-4 msk af tamari sojasósu, 3-4 msk af hrísgrjónaediki og 1 tsk af kryddblöndunni góðu.
Lét þetta malla saman aðeins. Slökkti svo undir og leyfði þessu að bíða meðan brögðin tóku sig aðeins.
Hitaði svo sósuna upp áður en ég bar hana fram.

Eggaldin og rauðlauksflögurnar gerði ég svona…

(Ég var með 2 mjög smá, lífræn eggaldin og tvo litla lífræna rauðlauka.
Þetta var svona álíka magn og einn meðalstór venjulegur rauðlaukur og svona….hálft eggaldin.
Ekki meira allavega.)

Skar eggaldinið mjög þunnt á mandólíní, lét það í skál með smávegis af sjávarsalti og leyfði vökvanum að renna af því. Tók stutta stund – svona 5-10 mínútur – þar sem þetta var mjög þunnt skorið.
Þá þerraði ég þetta vel á eldhúspappír.

Hitaði sólblómaolíuna – setti svona 300-400 ml í frekar djúpan en háan pott.
(Ég var með lífræna af því mér finnst hún betri, en það má eflaust nota hvaða bragðlitlu olíu sem er.)

Ég sem sé djúpsteikti eggaldinsneiðarnar. Tók dálítinn tíma, en var vel þess virði.
Það er best að fylgjast með hitanum – setja eina sneið í einu og ekki fyrr en þið eruð viss um að olían sé orðin vel heit. Passið svo að hún verði ekki of heit – það þarf að standa dálítið yfir þessu…
Eins þarf að passa að setja ekki of mikið í einu, þannig að hitastigið lækki ekki niður úr öllu valdi.
Þið finnið út úr þessu;)

Ég gerði það sama við rauðlaukinn – djúpsteikti hann – en ekki fyrr en ég var búin að steikja eggaldinið, því laukurinn er mun bragðmeiri.

Svo má líka einfalda sér lífið og nota djúpsteikingarpott ef svoleiðis er við höndina:)

Túnfiskinn kryddaði ég með sjávarsalti og örlitlu af fimm krydda blöndunni.
Steikti aðeins á hvorri hlið, á rjúkandi heitri pönnu með sólblómaolíu.

Sannkallað haust á diski!

Eggaldinið minnti mig á nýfallin haustlauf og rófustappan undir – hún er svona eins og gult gras á túni!

Verði ykkur að góðu:)

One Comment Add yours

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s