Fimm krydda marinerað lambainnanlæri með gulrótarmús…

Ég var með eitt lambainnanlæri og ekkert “plan”.

Stóðst það bara ekki þar sem ég stóð fyrir framan kjötborðið og var að kaupa í gúllassúpuna sem ég ætla að gera á morgun.

Ég ákvað að gera eitthvað gott úr því með fimmkryddablöndunni minni síðan um daginn.

Ég sullaði því eftirfarandi í pott:

40 ml tamari sojasósa
50 ml tómatsósa – ég var með lífræna sem er mun bragðmeiri en “venjuleg”
2 sk tómatpúrra
50-60 ml hunang – var með ljóst accacia hunang sem mér finnst best að nota í svona lagað
2 tsk fimmkryddablanda

Hitaði þetta sem sé aðeins, bara svona svo að allt blandaðist vel saman og smakkaði til að vera viss um að hlutföllin væru “rétt”. Það er örugglega hægt að nota einhverja aðra gerð af sojasósu eða hunangi, en þá er einmitt um að gera smakka það bara til og bæta við því sem manni finnst vanta. Meira hunangi, meiri tómatsósu eða tómatpúrru…eða kryddi.

Ég leyfði þessu að kólna aðeins og hellti svo á kjötið.
Marineringin hefði hæglega dugað fyrir tvo innanlæri svo sem.

Ég hugsa að þetta hafi legið í marineringunni í svona klukkutíma.
Hefði örugglega verið gott að láta þetta liggja yfir nótt.
Prófa það kannski næst þegar ég er aðeins skipulagðari;)

Síðan fór ég að spá hvað mig langaði að hafa með þessu.
Ég sá þessar líka spriklandi gulrætur í skúffunni sem hreinlega grátbáðu um að fá að vera með.
Í sameiningu ákvaðum við (ég og gulræturnar það er að segja) að þær skyldu verða að góðu mauki.

Ég skar hálfan lauk smátt og skellti í pott með einni matskeið af smjöri og örlitlu sjávarsalti.
Gulræturnar (500 gr) skar ég frekar smátt og fleygði þar með.

Út í pottinn fóru svo 2 smátt söxuð hvítlauksrif og 1 msk af hunangi.
Leyfði þessu að leika sér aðeins saman og setti þá nægt vatn til að flyti yfir ásamt 2 “soðmolum” úr frystinum. Það er að segja, kjúklingasoði sem ég hafði fryst í ísmolaboxi. Það er ótrúelega þægilegt að eiga til að bragðbæta matinn;)

Þegar gulræturnar voru komnar vel af stað, var komið að kjötinu.

Ég setti örlitla olíu á pönnuna og leyfði henni að hitna vel áður en ég setti kjötið á hana.
Lokaði því á báðum hliðum, lækkaði undir pönnunni, setti afganginn af marineringunni út á ásamt smá slettu af vatni. Lokið á og svo leyfði ég þessu að malla á lágum hita í svona…10 mínútur? Kannski 12. Sneri því við einu sinni á meðan á þessu stóð.

Á meðan maukaði ég gulræturnar. Hellti mestu af vatninu af þeim og maukaði þær með töfrasprotanum.

Þetta var algjört sælgæti. Kjötið meyrt og safaríkt og gulrótarmúsin smellpassaði með.
Á örugglega eftir að gera þetta aftur;)

Verði ykkur að góðu!!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s