Skrapp á ströndina og fékk mér rækjupasta….

Þessi réttur varð til hér á pönnunni áðan.

Eitt augnablik fannst mér sem ég sæti við fallega gríska strönd,
á rólegum veitingastað að borða pasta með rækjum.

Það er líklega fennelinn – anísbragðið af honum minnir óneitanlega á Ouzu, sem er oft mikið notað í matargerð á Grikklandi.

(..og er líka ferlega hressandi með klaka og vatni eftir heitan dag…)

Það eru frekar fá innihaldsefni í réttinum og því þeim mun mikilvægara að þau séu góð og fersk.

Ég byrjaði á því að skera fennelinn (var með 2 fremur smáa en ferlega fallega) í frekar þunnar sneiðar.
Ekkert svakalega þunnar – bara svona…

Á pönnuna fór líka heill hvítlaukur (tók utan af honum, en hafði rifin annars heil), sletta af smjöri (svona 50 gr), 1 msk af sykri, 1 tsk af sjávarsalti og nægilegt vatn til að flyti vel yfir.

Leyfði þessu að malla þar til vatnið hafði gufað upp og lét þá fennelinn krauma aðeins í smjörinu…

…sletti þá smá hvítvíni(svona 50 ml) á pönnuna til að ná öllu góða bragðinu af botninum…

…fleygði þá smátt skornum plómutómötum (500 gr) á pönnuna…

Því næst fór kjúklingakraftur á pönnuna (4-500 ml), 2 lárviðarlauf, hvítur pipar, svartur pipar og ögn af sjávarsalti…

Leyfði þessu að malla á meðan ég sauð pastað og ristaði fennelfræin…

(notaði bara svona 1/3 af fennelfræjunum – datt alltof mikið á pönnuna hjá mér…)..

Leyfði þeim að poppast aðeins og malaði þau svo í morteli.
Henti þeim svo á pönnuna með hinu góðgætinu…

Þá var komið að rækjunum…

…sem ég kaupi helst ósoðnar. Finnst það koma langbest út. Ef það er búið að sjóða þær og svo fara þær útí svona rétt – er alveg hætt við að þær verði seigar og ofsoðnar. Fyrir utan hvað þær tapa mikið af bragði við það…

Eftir 2 mínútur var þetta klárt…

Veiddi lárviðarlaufin úr, skellti soðnu spaghettíinu á pönnuna og kallaði
“Maturinn er tilbúinn! Allir að koma að borða!”

Leit svo út um gluggann í miðri máltíð og fattaði að ég var ekki á Grikklandi.
Maturinn var engu að síður ljúffengur…

Verði ykkur að góðu:)

Advertisements