Hunangs-sinneps-kjúlli með “nípuhreiðrum”….

Næst ætti ég kannski að gera eitt stórt hreiður og setja kjúklingabringurnar í það….hmmm…
Þá myndi þetta heita “Kjúklingur í nípuhreiðri”!! Það væri örugglega fallegt….

En þetta varð til hérna á pönnunni í gær.

Ég mældi svo sem ekkert sérstaklega í þetta – enda varð þetta bara til einhvern veginn…

Morgninum hafði ég eytt í tómatsúpugerð. Súpuna fór ég svo með í Ráðhúsið og gaf gestum og gangandi að smakka á Bókmessunni sem þar stendur yfir. Það var sérlega ánægjulegt að hitta fólk þar. Margir höfðu þegar tryggt sér eintak af súpubókinni minni, eldað úr henni og voru ánægðir með afraksturinn. Sumir ætluðu varla að trúa því að í tómatsúpunni væri einungis sjávarsalt, hvítur pipar og svartur pipar og engin önnur krydd. Stundum liggur bragðið nefnilega í aðferðinni, en ekki kryddunum;)

En að réttinum….

Ég átti hálfa nípu í ísskápnum sem ég vildi nota einhvern veginn.
Reif hana á mandolíni, reif parmesan útí, fleygði kúminfræjum útí, smávegis af cayenne pipar, sjávarsalti, hvítum pipar og svörtum pipar. Síðan bræddi ég eitthvað af smjöri og hellti útí skálina.
Blandaði þessu vel saman, setti í form og inn í ofn.

Þar var þetta á meðan ég gerði kjúklinginn klárann;)
Svona…180 gráður mest af tímanum en hækkaði aðeins undir rest.

Ég var með fjórar kjúklingabringur.
Setti smávegis af hveiti í skál. Síðan fór útí það sjávarsalt, hvítur pipar, svartur pipar og svo sinnepsduft. Svona teskeið af því (ætli þetta hafi ekki verið svona 6-8 matskeiðar af hveiti eða svo). Já – og svo reif ég börk af einni sítrónu útí líka.

Ég velti svo bringunum upp úr þessu, setti smjör og ólívuolíu á pönnuna og steikti á báðum hliðum.

Þegar þær voru fallega gullnar, kreisti ég safa úr einni sítrónu yfir, kreisti líka hunang útá pönnuna og makaði þessu vel yfir bringurnar og allt saman. Mér fannst vanta meiri vökva, þannig að ég fleygði tveim eplum í djúsvélina og skellti safanum úr þeim á pönnuna.Lækkaði svo hitann undir pönnunni og setti lokið á hana. Leyfði þessu að malla í rólegheitum, sneri bringunum og athugaði stöðuna við og við þar til bringurnar dæmdust tilbúnar.

Þá tók ég þær af pönnunni og slökkti undir.
Smakkaði sósuna og bætti smávegis af sinnepsdufti útí. Saltaði meira og pipraði.

Sósuna sem eftir var á pönnunni, þykkti ég svo með köldu smjöri sem ég fleygði útí í litlum bitum og hrærði vel saman við. Það þarf að passa það, að slökkt sé á pönnunni þegar sósa er þykkt með smjöri, því annað “splittast” smjörið og verður bara eins og eitthvað stórslys með olíbrák út um allt…Þetta er ekkert mál, þarf bara að hræra þessu saman frekar hratt og halda áfram að setja smjörið þar til sósan er mátulega þykk.

Hellti sósunni yfir kjúklinginn, tók hreiðrin mín úr ofninum og setti á fatið.

Þetta leit út og smakkaðist eins og góður, franskur sveitamatur.

Hefði örugglega verið gott að bera fram með kartöflumús líka. Kannski næst:)

Verði ykkur að góðu:)

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s