Gleðilegt ár!
Það er dálítið síðan ég hef sett nokkuð hingað inn.
Eitt og annað hefur hins vegar átt sér stað í eldhúsinu, þó svo það hafi ekki ratað hér á síður.
Ég hef bara verið í einhverju letikasti. Og svo smá pest – ekkert alvarlegt og allt að lagast:)
Í kvöld var ég með svínakótilettur í matinn.
Þær komu ágætlega út – kryddið var sérlega gott og þar sem það er töluvert eftir af því, á það örugglega eftir að lenda í einhverju góðu hér á næstunni.
Ég er ekki alveg viss hvað ég eigi að kalla þessa blöndu.
Hún var bara til hérna einvhern veginn. Létt en bragðmikil og alls ekki sterk.
Smellpassaði með kótilettunum allavega.
2 tsk fenugreek fræ
2 tsk gul sinnepsfræ
2 tsk kúmenfræ
2 tsk kóríanderfræ
1 heill þurrkaður chillipipar
1 tsk kanill
1 tsk svartur pipar
1 tsk hvítur pipar
1 tsk sæt paprika
1 msk muscóvado sykur ( má vel nota dökkan púðursykur líka )
2 tsk sjávarsalt
Fyrstu 4 kryddin ristaði ég heil á pönnu og malaði í mortelinu.
Þurrkaða chillipiparinn muldi ég svo út í og bætti síðan restinni af
kryddunum og sykrinum saman við.
Ég þurrkryddaði kótletturnar og steikti þær á pönnu með smjöri og ólívuolíu.
Skar 2 lauka í sneiðar, fleygði þeim á pönnuna þegar ég hafði steikt kótiletturnar í svona 2 mínútur á hvorri hlið og skellt þeim í heitt fat. Þegar laukurinn var aðeins farinn að glærast, setti ég 2 epli í djúsvélina og bætti safanum af þeim á pönnuna ásamt 2 matskeiðum af hunangi og smáslettu af hvítvínsediki.
Leyfði þessu að krauma aðeins saman og setti þetta síðan yfir kótiletturnar.
Fatið fór inn í ofn við 150 gráður – jós safanum yfir við og við og tók loks út þegar kótiletturnar voru tilbúnar. Ég algjörlega tók engan veginn tímann á þessu öllu – kjöt kallar vanalega bara á mig þegar það er tilbúið. Ekki spyrja mig hvernig – það gerir það bara.
Sósan var einföld.
Ég tók safann sem kom úr fatinu, sigtaði hann og setti í pott.
Hrærði síðan köldu smjöri útí til að þykkja. Oft þarf alveg helling af köldu smjöri þegar sósur eru þykktar á þennan hátt þannig að það er best að vera bara með nóg við höndina!
Það þarf að passa vel hitastigið.
Slökkva undir pottinum og vinna frekar hratt þannig að smjörið skilji sig ekki.
Það er síðan ekki sniðugt að ætla að hita sósur sem eru lagaðar svona upp.
Það verða bara vonbrigði.
Verði ykkur að góðu!:)