Kryddin fóru á kjötið í hádeginu og fengu því að leika sér aðeins þangað til ég kom aftur heim seinni partinn í dag. Hefði örugglega ekkert verið verra ef þau hefði fengið að leika sér í friði yfir nótt, en 5-6 tímar er svo sem alveg nóg.
Það fór eitt og annað í kryddblönduna sem var nokkurn veginn svona og dugði á rúmt kíló af kjöti…
1 msk kúmin
2 tsk paprika
1 tsk cayennepipar
1 tsk svartur pipar
1 tsk hvítur pipar
1 tsk hvítlauksduft
2 tsk kanill
1 tsk engifer
1 tsk kardimommur
1-1,2 kg lambaframpartur
smávegis af ólívuolíu
3 laukar
500 gr gulrætur
15-20 apríkósur
1 líter kjúklingakraftur
smávegis af sjávarsalti
2-3 msk hunang
ristaðar möndlur eða möndluflögur
Klíndi sem sé kryddinu á kjötið og leyfði þessu svo að standa í fati á eldhúsborðinu meðan ég fór og kláraði daginn. Um klukkan 18 fór kjötið svo í ofninn.
Skar 3 lauka í sneiðar, hálft kíló af gulrótum í stóra bita og svo duttu svona 15-20 apríkósur í fatið líka. Skar þær fremur litla bita. Ekkert alltof litla samt.
Kjötið var svo brúnað aðeins á pönnu með ólívuolíu og lenti því næst ofaná gulrótunum, lauknum og apríkósunum í fatinu.
Til að fá sem mestan kraft í réttinn, setti ég líter af kjúklingakrafti á pönnuna og skrapaði öll góðu brögðin vel af pönnunni. Hellti þessu yfir kjötið og setti síðan smávegis af sjávarsalti og 2-3 msk af hunangi yfir allt.
Álpappír yfir fatið og fatið inn í ofn.
Þar fékk þetta að malla í rúmar tvær klukkustundir á svona 120 gráðum.
Og svo var að sjálfsögðu kús kús með. Kemur ekkert annað til greina með þessum rétti;)
Yfir allt fóru svo ristaðar möndluflögur.
Þetta var bara frekar gott verð ég að játa og passaði algjörlega þennan kalda vetrardag.
Verði ykkur að góðu:)