Hrós dagsins….

DSC_0037

….fær þessi hamborgari….

Svo sem ekkert svakalega flókin uppskrift sem hér fylgir, en hún virkar.

Þetta voru 140 gramma hamborgarar sem ég kippti með í Kjöthöllinni á leiðinni heim.
Kryddaðir með sjávarsalti, hvítum pipar, svörtum pipar og gulu sinnepsdufti.

Einhvern veginn hef ég komist að þeirri niðurstöðu að 140 gramma hamborgarar séu málið.
Það er líka hægt að fá 90 gramma (sem mér finnst of litlir) og 200 gramma (sem mér finnst of stórir).
En þetta er líklegast bara smekksatriði:)

Steikti þá úr blöndu af smjöri og ólívuolíu á vel heitri pönnu.

Mér finnst best að steikja þá vel á annarri hlið, snúa þeim við og setja ostinn nokkurn veginn strax ofaná.
Lokið síðan strax á pönnuna (svo osturinn bráðni almennilega ) og lækka undir.

Rauðlaukinn gerði ég í gær. Hann lenti þá í salati með túnfisk, soðnum kartöflum og fetaosti.
En hann passar samt með öllu einhvern veginn.

Skar rauðlaukinn sem sé í sneiðar og setti í ofn ásamt ólívuolíu, balsamediki og sjávarsalti.
Hafði hann á svona 160-170 gráðum í þónokkra stund. Hrærði í honum við og við.

Svo er þarna stappað avókadó.
Bara stappað með smávegis af sítrónusafa.
Ekki flókið, en avókadóið þarf hins vegar að vera fullkomlega þroskað.
Ég kaupi yfirleitt nokkur í einu og sting þeim í skál með banönum.

Þegar þau eru þroskuð og fín, fara þau í ísskápinn. Þar geymast þau nokkuð vel.
Allavega 5-6 daga ef ekki lengur.

Kokteilsósan er einföld. Sýrður rjómi, tómatsósa, sítrónusafi og sykur.

Ég nota frekar bragðmikla, lífræna tómatsósu frá Biona. Finnst hún langbest.

Já. Og beikon. Vel stökkt og gott.

Verði ykkur að góðu:)

Advertisements