Það var afgangur hér af kjöti sem ég var með um helgina. Svona 300 grömm eða svo. Og einn pakki af udon núðlum. Og svo fór svona eitt og annað sem ég fann hér í skápum útí.
Úr þessu varð þetta líka mikla og góða fusion confusion dæmi sem þið sjáið hér mynd af og var ótrúlega gott.
Einn af mínum uppáhaldsþáttum er á Food Network og heitir Chopped. Ég veit um ansi marga sem horfa á hann og skilja vel hvað ég á við þegar ég segi að í dag fékk ég sem sé nautakjöt, gúrku, eplaedik og sojasósu.
Kjötið var þegar steikt, en það má hvort heldur nota kjöt sem hefur verið steikt deginum áður eða kaupa bara sérstkalega í réttinn.
Ég geri oft svipaða rétti og nota þá mirin, hrísgrjónaedik og lime. Ekkert af því var hins vegar til í ísskápnum, þannig að þetta var hálfgert fusion á endanum. Það var hins vegar til sítróna og eplaedik þannig að það var notað. Það var ekki einu sinni til hvítlaukur.
Ég reif góðan bita af engifer á rifjárni (svona þumlungsstóran), skar eitt rautt chilli mjög smátt, setti hvort tveggja í skál ásamt tamari sojasósu (svona 100-150 ml), 2-3 matskeiðum af hrásykri, slettu af fiskisósu, safa úr einni sítrónu og 3-4 matskeiðum af eplaediki.
Kjötið fór þarna útí og fékk að marinerast meðan annað var fundið til.
Skar það sem sé í strimla og setti svo í marineringuna.
Ég skar 2 lauka í þunnar sneiðar og steikti á pönnu í ólivuolíu þar til þeir voru orðnir frekar dökkir og stökkir.
Til að hjálpa ferlinu aðeins, setti ég 1-2 matskeiðar af hrásykri á pönnuna alveg undir rest.
Laukinn tók ég svo af pönnunni og geymdi meðan restin af eldamennskunni fór fram.
Ein rauð paprika var skorin í strimla og fór á pönnuna um leið og ég tók laukinn af.
Þegar hún var aðeins farin að linast, fór kjötið og marineringin á pönnuna og fékk bara rétt að hitna að suðu áður en ég slökkti undir pönnunni.
2 matskeiðar af sesamfræjum duttu þarna útí og þá var komið að því að setja laukinn aftur útí. Núðlurnar voru akkúrat tilbúnar og fóru beint útá heita pönnuna ásamt hálfri agúrku sem ég hafði skrælt og rifið á mandólíni.
Agúrkan lyfti þessu vel og gaf góðan ferskleika í réttinn. Passaði sérlega vel þarna útí.
Eins og ég segi – þetta var algjört confusion fusion sem má kannski að vissu leyti kenna við Japan en þó alls ekki. En skiptir það svo sem öllu máli? Aðal málið er það, að þetta virkaði og var alveg svakalega gott.