Þessi gæti ekki verið einfaldari.
Tilbrigði við Arrabbiata, sem þýðir víst “reiður” á ítölsku.
Ég get sagt ykkur það, að maður verður samt alls ekkert reiður við það að gera eða borða þessa sósu. Þvert á móti. Hún gleður bara og það besta er hversu einföld hún er og hversu fá innihaldsefni þarf að hafa til.
Ég notaði plómutómata í þessa, en hvaða góðu tómatar sem er duga örugglega.
Ég kaupi frekar heila tómata í dós en saxaða og frekar lífræna eða ítalska en aðrar tegundir.
Mér finnst þeir bragðmeiri og betri. En það er auðvitað bara smekksatriði.
Plómutómata finnst mér gott að nota þegar fátt annað er í réttinum og þeir hafa tækifæri til að njóta sín í botn eins og í þessu tilfelli.
Ég henti þarna útí einum tenging af góðum, lífrænum kjúklingakrafti.
Það má auðvitað líka nota grænmetiskraft ef maður vill hafa þetta grænmetisrétt.
Eða bara sleppa kraftinum. Mér finnst oft gott að henda einum tenging út í rétti sem þennan, sem eru að mestu leyti “grænmetisréttir”, en þola samt alveg smá kraft.
Hér kemur svo listi yfir það sem þarf:
ólívuolía
2 dósir af plómutómötum
2 laukar
2 stórir stilkar af sellerí
1 appelsínugul paprika
2-3 hvítlauksrif
1 teningur af kjúklingakrafti ( má sleppa )
sjávarsalt
hvítur pipar
svartur pipar
sterk paprika
fersk steinselja
penne pasta
parmesan
Laukurinn og selleríð skorið smátt og sett í pott ásamt dálitlu af ólivuolíu og smávegis af sjávarsalti.
Þar er því leyft að malla á vægum hita, þar til laukurinn hefur glærast vel.
Þá er frekar smátt skorinni paprikunni bætt saman við og henni leyft að linast aðeins.
Þá fer smátt saxaður hvítlaukurinn saman við.
Út í þetta fara síðan 2 dósir af plómutómötum, kjúklingakrafturinn og kryddin.
Allt nema steinseljan.
Leyft að malla á vægum hita í smástund – svona 20-30 mínútur eða þar til allt er orðið vel lint.
Smakkið til með kryddunum og kryddið eftir þörfum. Sósan á að rífa aðeins í.
Hún mildast svo þegar pastað er komið saman við og parmesan osturinn.
Ef þið eigið ferskan chillipipar, þá er gott að bæta honum saman við um leið og paprikunni en það er ekki nauðsynlegt.
Allt maukað með töfrasprota, steinseljan söxuð smátt og henni bætt saman við.
Pastanu bætt saman við og síðan er þetta borið fram með nýrifnum parmesan og nýmöluðum svörtum pipar.
Verði ykkur að góðu:)