Það var töluvert eftir af sætu kartöflumúsinni síðan í gær og eins af sósunni góðu sem fór á rifin.
Skrapp í fiskbúð á leiðinni heim og kippti með löngu,
þrátt fyrir að það hljómi alltaf í hausnum á mér að “kaupa ekki fisk á mánudögum”.
Það er kannski í góðu lagi og nokkurn veginn sama hvaða dag fiskur er keyptur hér.
Fiskur er hins vegar ekki eitthvað sem ég myndi panta mér á veitingastað á mánudegi væri ég stödd einhvers staðar annars staðar en í sjávarþorpi og liggur við sæi fiskinn koma að landi.
Mér finnst langa ágætis fiskur.
Hann heldur sér betur í eldun en þorskur, þó svo þorskur sé alltaf góður.
Setti sætu kartöflumúsina í fat, smá smjör yfir og hlynsíróp, nokkrar saxaðar pistasíur og svo smá kanil yfir allt.
Inn í ofn í smástund-bara rétt þannig að hún hitni í gegn og pistasíurnar taki smá lit. Kannski ekki alveg jafn mikinn lit og hér að neðan.
Nokkrar urðu aðeins of dökkar, en það kom ekki að sök:)
Fiskinn penslaði ég svo báðum megin með sósunni góðu og skellti inn í sjóðandi heitan ofn í tæpar 20 mínútur.
Það er nokkuð misjafnt hvað fiskur þarf langan tíma í ofni,
eftir því hversu þykkir bitarnir eru.
Verði ykkur að góðu:)