Þetta var ótrúlega frískandi og gott.
Dálítið sumarbragð af þessu, þó svo veðrið sé ekki beint sumarlegt úti núna.
Sítrónurnar komu spriklandi ferskar alla leið frá Sikiley en jarðarberin safaríku
komu frá Íslandi. Nánar tiltekið Reykholti. Hvort tveggja nældi ég mér í í Frú Laugu fyrir helgina.
Þetta er frekar einfalt:
400 gr mascarpone ostur
Safi og börkur af 2 sítrónum
150 gr flórsykur
500 ml rjómi
1/2 pakki Bastogne kex (130 gr eða svo)
40-50 gr smjör
Ostur, sítrónubörkur, sítrónusafi og flórsykur sett saman í skál og blandað vel.
Betra að osturinn sé farinn að linast aðeins. Ég var að flýta mér dálítið og greip
því töfrasprotann þannig að þetta tók enga stund.
Rjóminn þeyttur – ekki alveg stífþettur samt – og honum blandað saman við sítrónu/ostablönduna.
Kexið sett í matvinnsluvél eða mulið á hvern þann hátt sem vill.
Smjörið brætt og því bætt saman við kexið.
Síðan er bara að raða. Og setja inn í ísskáp til að leyfa þessu að kólna vel.
Jarðarberin…
Það skiptir miklu að hafa gott balsamedik. Og passlegt magn af sykri.
Það besta í stöðunni er að prófa eitt jarðarber, prófa einn dropa af balsamedikinu
og vega það síðan og meta hversu mikið maður vill nota. Það þarf ekki mikið.
Það er hins vegar best að gera þetta ekki fyrr en á að bera þau fram.
Ef þau eru látin bíða of lengi í edikinu, byrja þau að leysast upp og allt verður að graut.
Sem sé – skera jarðarberin niður (eða hafa þau heil ef maður vill), smávegis af balsamediki, smávegis af sykri….og svo basil ef vill.
Tilbúið.
Algjört sælgæti.
Verði ykkur að góðu:)