Nokkrir fiskar sem ég fann í tölvunni….og svo smá tuðsósa með…

Mér hefur alltaf fundist fiskur góður.

Sem betur fer eru flestir hættir að sjóða hann í mauk eins og einu sinni var algengt.
Það er þó vissulega hægt að klúðra matreiðslu hans á margan annan hátt.
Til dæmis með osti, en það er eitthvað sem ég ætla ekki frekar útí að þessu sinni!

Það kom mér verulega að óvart þegar ég var að læra, hversu margir áttu í erfiðleikum með fisk.
Flestum fannst ógeðslegt að koma við hann og kúguðust við tilhugsunina um að hreinsa innan úr honum.

Mér fannst það alltaf minna mál en að hreinsa innvolsið úr kjúkling.
Ég notaði alltaf hanska ef ég þurfti að gera það og hlakkaði sjaldan mikið til verksins. Mér finnst samt alveg ferlega gaman að úrbeina alls kyns annað en kjúkling og velti því stundum fyrir mér hvort ég hefði hugsanlega átt að leggja fyrir mig skurðlækningar.

Nei annars….þetta síðasta var grín.
Betra að láta það fylgja með til að fyrirbyggja misskilning.
Sem minnir mig á annað sem er mér kært. Hnífar.Og hvað þeir eru nauðsynleg eldhúsáhöld. Og hvað það er ferlega leiðilegt að lenda í því að elda mat í eldhúsum þar sem enga almennilega hnífa er að finna. En það er líklega efni í annað tuð. Höldum okkur við fiskinn.

Hugsanlega hefur þetta allt eitthvað að gera með það sem maður er alinn upp við.
Kjúklingur var ekki algengur matur “í gamla daga” meðan fiskur var oft á borðum.

Ég verð þó að játa að mér fannst ekkert svakalega gaman að setja lifandi skelfisk í pott eða á pönnur.
Af þeirri ástæðu, lenti ég oft í því að hreinsa og flaka 3-4 fiska meðan einhver annar tók að sér að henda humrinum í pottinn og vatnahumrinum á pönnuna.
Vatnahumar (crayfish) á það til að hlaupa af pönnunni þannig að maður þarf að hafa sig allan við að smala honum aftur á pönnuna. Það fannst mér frekar erfitt svona samviskulega séð, meðan aðrir áttu í minnstu vandræðum með það.
Blessunarlega slapp ég við að þurfa að hamfletta lifandi ál, en það er eitthvað sem ég myndi ekki óska versta óvini mínum.
Það er líka sem betur fer eitt af því sem ég hef haft litla þörf á að kunna og þó svo ég kunni það eflaust tæknilega, er ég ekkert að fara að standa í því hér í eldhúsinu!

Það kemur mér oft að óvart hvað margir eru smeykir við að borða fisk “í útlöndum”.
Það er nefnilega til góður fiskur annars staðar en hér á landi og í mörgum löndum er mun meiri virðing borin fyrir honum en flestu öðru hráefni.

Hann er oftar en ekki dýrari en kjöt og þar af leiðandi sjaldnar á borðum.

Ég fer oft til Grikklands á sumrin og eyði löngum stundum á lítilli eyju.
Þar sem þetta er frekar lítil eyja, er hafið allt um kring.
Sem segir sig kannski sjálft;)

Það er ekki þar með sagt að það sé hlaupið að því að fá fisk.

Eldsnemma á morgnana kemur gamall maður í bæinn með veiði dagsins.
Stundum örfáa fiska.
Hann situr á sama bekk á hverjum degi og fólk flykkist að til að kaupa þann fisk sem er í boði. Meira að segja veitingahúsaeigendur koma til hans og ræðst þá hvaða fiskur er á matseðlinum þann daginn.

Síðan spyrst út hver hafi keypt hvaða fisk og þar með er afráðið hvert skal halda það kvöldið, sé maður í skapi fyrir fisk.

Það eru vissulega fleiri sem veiða, en ekki margir.
Og það er mikil virðing borin fyrir þeim sem það kunna.

Á einum stað við ströndina fer þetta þannig fram að maður pantar fiskinn daginn áður,semur um verð, ákveður klukkan hvað skal borðað og hversu margir komi í mat.

Eigandinn fer síðan út með spjót og nær í fiskinn. Stundum er maður það heppinn að sjá hann koma með hann að landi og nær að fylgjast með öllu ferlinu frá því fiskurinn kemur að landi og lendir á disknum hjá manni.
Það er ævintýralegt og ég hugsa að ferskari fisk sé erfitt að finna.

Á veturna er ansi fámennt á þessari eyju og erfiðara að róa út sökum vinds.
Þá hafa bæjarbúar þann háttinn á, að þeir kaupa sig inn í fiskkaupin.

Mér skilst að það fari einhvern veginn svona fram:

Þeir sem gætu hugsað sér að fá fisk í matinn þann daginn, kaupa sér miða.
Nokkurs konar “fiskahappadrættismiða”. Síðan fer kallinn út að veiða.
Allir bíða spenntir eftir því að sjá hvað hann kemur með að landi.
Því næst er dregið úr seldum miðum og sá sem hefur réttar tölur, vinnur fiskinn.

Það er nefnilega ekki til nægur ferskur fiskur fyrir alla og þar af leiðandi
er nauðsynlegt að hafa einhvers konar kerfi sem allir eru sáttir við.

Það er eitt sem ég hef aldrei skilið almennilega.
Það er allt tal um að fiskur sé dýr.
Ég hef aldrei séð fisk ódýrari en einmitt á Íslandi.

Við hvað er verið að miða? Mér finnst kjúklingur hér á landi hins vegar alltof dýr og skil ekki almennilega tal um dýran fisk, á meðan fólk flykkist í verslanir og kaupir rándýran kjúkling eins og enginn sé morgundagurinn.

Og ég er ekki einu sinni byrjuð að minnast á sushi.
Ég fæ mér sushi oft þegar ég ferðast.
Ég fæ mér oft sushi hér heima.
Ég yrði alveg ótrúlega þakklát ef það yrði dálítil “sushi bylting” á íslenskum
sushistöðum, þannig að úrvalið yrði fjölbreyttara og eins að það meira væri aðeins meiri alúð lögð í bitana. Ég er viss um að ég myndi þá oftar fleygja frá mér svuntunni og fara að fá mér sushi.

Annars var ég bara aðeins að taka til í myndasafninu hjá mér.
Það þarf að gera það stundum.

Og árangurinn má sjá hér fyrir neðan.
Fann alls kyns fiska í tölvunni hjá mér og þessir unnu í myndahappdrætti kvöldsins og fá þar af leiðandi að vera með í þessu tuði mínu um fisk.

IMG_1464

Grillaður heill. Borinn fram með sítrónum.

IMG_1479

Og étinn upp til agna. Kisa hugsaði sér samt gott til glóðarinnar.

IMG_1653

Þessi vinnur enga fegurðarsamkeppni, en góður var hann…

IMG_1746

Kalamari og strönd eiga góða samleið.

IMG_1879

Fiskur og franskar…

IMG_1960

Rækjupasta á sólríkum degi

DSC_0016

Humarrisotto

DSC_0019

Ýsa í raspi með lauk, eplum og remúlaði.

DSC_0031


Surf and turf fyrir þá sem geta ekki ákveðið sig.

DSC_0044

Chowder með hörpuskel og krabba.

DSC_0037

Kolkrabbi.

DSC_0118

Fiskisúpa-súpan borin fram sér og síðan setur hver og einn þann fisk og grænmeti sem hann vill út í sjálfa súpuna. Lítur kannski ekki vel út, en var gott engu að síður:)

DSC_0053

Humarpasta

DSC_0022

Nýveidd murta og nýuppteknar karöflur. Steikti þær úr andafitu ef ég man rétt. Kartöflurnar það er að segja.

IMG_2816

Einfalt og gott. Þorskur í ofni og soðnar kartöflur.

DSC_0027

Þorskur, blómkálsmús og púrra.

DSC_0061

Pizza með ansjósum, hörpuskel og eggjum.

DSC_0095

Langa með alls kyns góðum kryddum og steiktum lauk.

DSC_0003

Brauð með rækjum og avókadó. Örlítill cayennpipar yfir.

DSC_0041

Þorskur með rófustöppu, fennel og litríkum tómötum.

DSC_0116

Túnfiskur með rófustöppu, eggaldinflögum, “púrrlauksstráum”og plómusósu.

DSC_0064

Túnfiskur með risotto.

DSC_0034

Þorskur með polentu-frönskum og alls kyns grænmeti.

IMG_2347

“Silunga tortillu kvöld”. Veiddi bara tvo litla, þannig að það varð að láta þá duga!

IMG_2484

Þorskhnakki með hráskinku, bökuðu hvítkáli og blómkálsmauki.
Þarf að muna að segja ykkur meira frá bakaða hvítkálinu einhvern tímann.
Það var algjör snilld!

IMG_2579

Wellfleet ostrur, steikt hörpuskel og chowder á skyndibitastað í Wellfleet.
Besti skyndibitastaður í heimi finnst mér!

IMG_2731

Rækjukokteill að ítölskum hætti í New York;)

IMG_2816

Stundum er gott að hafa þetta einfalt.
Þorskur í ofni og soðnar kartöflur.

IMG_2875

Sjávarréttapasta fyrir heilan her í undibúningi…

IMG_2898

Stundum getur maður ekki ákveðið sig…og þá er gott að gera bara bæði.
Lax með basil og hvítlauk og lax með balsamediki og fleira góðu..

IMG_2900


Túnfiskur rótargrænmeti með rósmarín.

Verði ykkur að góðu!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s