Þessi tiltölulega einfaldi réttur varð til hérna á pönnunni áðan.
Kálfakjöt með salvíu og strozzapreti, eða pasta kyrktu prestanna.
Ég er alltaf dálítið hrifin af salvíu og nota hana oft í einfalda pastarétti eins og þennan hér eða jafnvel í þessu samhengi.
Eða með nýuppteknum kartöflum. Sú samsetning klikkar ekki.
Ég byrjaði á því gera steikja salvíuna úr smjöri og tók hana því næst af pönnunni.
Kálfakjötinu velti ég upp úr hveiti sem ég kryddaði með sjávarsalti, hvítum pipar og örlitlu sinnepsdufti.
Steikti kjötið síðan úr salvíusmjörinu.
Bætti smá ólivuolíu á pönnuna og meira smjöri eftir þörfum.
Á meðan sauð ég pastað.
Þegar kjötið var tilbúið, tók ég það af pönnunni og hellti hvítvíninu útí.
Skrapaði síðan eins mikið af pönnunni og ég gat til að ná öllu bragðinu sem þar var. Þessu hellti ég síðan gegnum fínt sigti og á aðra pönnu, leyfði hvítvíninu að gufa aðeins upp og bætti rjómanum útí. Smakkaði sósuna, bætti örlitlu sjávarsalti saman við og fleygði síðan pastanu útí.
Muldi því næst stökku salvíuna saman við pastað og tilbúið á borðið!
Hlutföllin voru nokkurn veginn svona:
1 kg kálfasnitsel
vænt búnt af salvíu
100-150 gr smjör
200 ml rjómi
200 ml hvítvín
5-6 msk hveiti
1 tsk sjávarsalt
1 tsk hvítur pipar
1 tsk sinnepsduft
Enn og aftur-mældi ekki nákvæmlega, en þetta var nokkurn veginn svona:)
Verði ykkur að góðu!