Var úti í búð á fimmtudaginn og greip með einn kalkún úr frystinum.
Leitaði vel og lengi af þeim minnsta-3-4 kg stóð á pokanum.
Hinir voru 6-7 kg og ég er ekki með það stóra fjölskyldu!
Hann afþiðnaði svo hér í rólegheitunum og allir biðu spenntir eftir þakkargjörðarhátíðinni….sem er víst ekki fyrr en í næstu viku!
Úbbs!
Viku of snemma í því…talandi um að vilja ljúka hlutunum af!
Fattaði reyndar fljótt að ég væri kannski of snemma í því, en hvað með það?
Má maður ekki bara gera hlutina eins og maður vill?
Hver veit nema ég ljúki jólamatnum af fljótlega bara?
Ég var reyndar stödd í Plymouth fyrr í haust, akkúrat á þeim stað sem þetta allt byrjaði. Þakkargjörðarhátíðin það er að segja.
Á föstudagskvöldið var flykkið afþiðið og spurning um að fara að leggja það í bleyti.
Stóri balinn var dreginn fram og síðan fór eitt og annað í pott.
200 gr gróft sjávarsalt
100 gr púðursykur
3 stjörnuanís
Nokkur lárviðarlauf
Svona matskeið gulum sinnepsfræjum
Matskeið af kanil
Eitthvað af negul…svona teskeið
Matskeið af hvítum pipar
Eitthvað af svörtum pipar
Og vatn…svona 4 lítrar allt í allt.
Hitaði samt kryddin bara í smá vatni og bætti svo köldu vatni við.
Engin leið að fara að bíða eftir að 4 lítrar af vatni kólnuðu til að hægt væri að hella því í balann með kalkúnagreyinu.
Er það bara ég, eða finnst ykkur myndir af hráum fuglum líka ólystugar?
Set hana bara með svo þið sjáið hvað balinn smellpassaði undir hann.
Hefði örugglega þurft meira vatn og meiri krydd ef balinn hefði verið stærri;)
Setti hann sem sé með bringuna niður og inn í ísskáp með balann
Sneri honum við á laugardagsmorgun og leyfði þeim litla hluta sem ekki komst á kaf að fá smá kryddbað líka.
Því næst tók ég hann upp, þvoði honum vel og vandlega og skellti honum aftur í balann.
Út í bíl með hann og í vinnuna. Það var sem sé svona “Take your turkey to work” dagur hjá mér. Þurfti að baka og ekki séns að ég gæti verið á tveim stöðum í einu.
Greip eitt og annað kryddkyns með, lauk, gulrætur og sellerí og hugsaði á leiðinni hvað það yrði nú slysalegt ef skottið myndi opnast og kalkúnninn fljúga á næsta bíl fyrir aftan. Það gerðist ekki. Annars hefðuð þið lesið um það í fréttum undir einhverri skemmtilegri fyrirsögn eins og “Kalkúnn flaug á bíl í Reykjavík” eða eitthvað álíka.
Nú er komið að krydduninni. Meira er betra. Og alls konar krydd.
Þetta fór í kryddskálina hjá mér að þessu sinni.
Sjávarsalt
Reykt salt
Paprikuduft
Sinnepsduft
Timian
Oregano
Kanill
Negull
Hvítur pipar
Við erum að tala um allavega matskeið af hverju af kryddunum – nema aðeins minna af negul kannski. Og heilan helling af salti. 3-5 matskeiðar af hvorri gerð.
Nei.Ég mældi ekki sérstaklega, enda er aðalatriðið að hafa bara nóg af kryddi.
Og þerra kalkúninn vel áður en hann er kryddaður. Og passa að taka hann út allavega 2 tímum áður en hann fer í ofninn svo hann sé slakur og til í hvað sem er.
Og smjör. 250 grömm af ósöltuðu smjöri. Bræddu í potti og smurðu á kalkúninn á sama tíma og kryddin fara á. Fyrst nudda smjörinu á, síðan kryddum, meira smjöri, meira kryddi…
Og ekki klikka á grænmetinu…Það er heldur einmannalegt fyrir grey kalkúninn að fara einn inn í ofninn. Fyrir utan það, að grænmetið gefur bragðið í sósuna;)
2 sellerístilkar
2 laukar
Slatti af gulrótum
4-5 lárviðarlauf
Já. Tilbúinn í ofninn? Ég held það…
Eins og þið sjáið, kryddaði ég hann vel að innan líka og hellti fullt af smjöri með.
Síðan fór hann í ofninn.
Var með hann á 100 gráðum undir álpappír í klukkustund.
Sá að það var ferlega lítið að gerast,en eitthvað þó – þannig að ég tók álpappírinn af og leyfði honum að dóla í aðra klukkustund á 120 gráðum. Setti rúman hálfan líter af vatni í ofnskúffuna á sama tíma og ég tók álpappírinn af.
Jós síðan yfir hann vökvanum við og við þar til yfir lauk.
Eftir tæpan klukkutíma fannst mér kominn tími til að hækka aðeins á ofninum.
Setti hann í 180 gráður og á sirka 20-30 mínútum var kominn fallegur litur á fuglinn.
Þá slökkti ég á ofninum og leyfði honum að hvíla sig í alveg 2 tíma eða svo án þess að opna ofninn. Þannig helst rakinn sjáiði til.
Á meðan allt þetta var að gerast, bakaði ég smávegis…og aðeins meira en það.
Einhvern tímann að verða 6 ákvað ég að nóg væri komið af bakstri og veseni, þannig að út í bíl fór kalkúnninn – sósan í krukku – og ég undir stýri.
Síaði sem sé vökvann frá og henti grænmetinu.
Vökvinn (krafturinn það er að segja) fór í glerkrukku og kom með heim.
Pakkaði kalkúninum í álpappír og lét hann var í álpappírnum alveg það til kom að því að bera hann á borð hérna einhvern tímann um hálfátta leytið.
Hann hafði því meira en nægan tíma til að hvíla sig eftir annasaman dag og var enn heitur.
Ef það er eitthvað sem drepur kalkún og gerir hann þurran, er það að skera hann of snemma og leyfa honum ekki að hvíla sig. Sama á reyndar við um allt kjöt.
Á þessum punkti hefði ég vel getað gleymt að loka skottinu og þá hefðu fyrirsagnir blaðanna verið “Eldaður kalkúnn flaug á bíl í Reykjavík ásamt krukku af soði”.
Sem betur fer gerðist það ekki og bæði ég og kalkúnninn komumst heil heim.
Ekkert svona atriði sem hefði átt heima í “Thanksgiving mynd” átti sér stað.
Enginn var veðurtepptur á flugvöllum, enginn aukagestur, ekkert.
Bara fjölskyldan og kalkúnninn.
Sósan:
Þið sáuð krukkuna hér fyrir ofan?
Og hvernig fitan er ofaná?
Hún var tekin af. Það er alltaf auðveldara að gera það þegar soðið hefur kólnað aðeins og eins er betra að hafa það í krukku, könnu eða einhverju háu íláti. Þessi minni flötur sem er, þess auðveldara er að veiða fituna ofanaf.
Soðið í pott. Smakkað. Beurre manie.
Þetta soð var það bragðmikið og gott að ég sá enga ástæðu til að bæta nokkru einasta kryddi við, hvað þá heldur að sjóða það niður. “Consentrera það”. “Reduca það”.
Nú er íslenska orðið á þessu athæfi týnt…sjóða það niður? Já. Það verður að duga.
Ég vona að þið skiljið hvað ég á við!
Og svo þykkja. Með beurre manie. Sem er lint smjör og hveiti – sirka 2 matskeiðar af hvoru dugðu í þetta sinn, en það er best að bæta því útí smátt og smátt til að sjá hvað þarf mikið.
Og víkur þá sögunni að meðlætinu.
Það var engin fylling.
Engar sætar kartöflur.
Ekkert hlynsíróp.
Engar pekanhnetur.
En það var alls konar annað….
Rjómalagað spínat….
Waldorf salat “my way”…
Polenta…
Og góður félagsskapur.
Hann er ekki síður nauðsynlegur en góður matur.
Meðlætið kemur fljótlega – þarf að fara að baka aðeins meira…
Verði ykkur að góðu!