Níu egg

IMG_4011

Þetta var kannski ekki merkilegt.
En alveg merkilega gott samt.

Ég nennti engri svakalegri eldamennsku og alls ekki út í búð.
Þaðan af síður að reyna að hugsa upp einhvern stað sem ég nennti að fara á.

Ég var líka pínu (pakksödd!) eftir möndlurnar góðu úr síðustu færslu.
Ekki þær sem ég gerði í gær. Þær kláruðust strax. Nei. Ég gerði meira áðan;)

Þannig að úr varð eggjakaka.

Það var ósköp fátæklegt í ísskápnum, en ef það eru til egg þá er alltaf til matur.

IMG_3971

Ég fann níu egg, hálft kíló af spínati, rjómaslettu, grænan chillipipar, hvítlauk og smáklípu af mascarpone.

Sem sé….

Ólívuolía

9 egg
500 gr spínat

4 hvítlauksrif
1 grænn chilipipar

200 ml rjómi

Svona teskeið af turmerik
Svona teskeið af paprikudufti
Eigum við að segja teskeið af sjávarsalti?
Teskið hvítur pipar? Ekki alveg svo mikið, en næstum því…
Alveg 2 matskeiðar af oregano.

100 gr mascarpone

Og svona gerðist þetta…

Skar hvítlaukinn í þunnar sneiðar og chilipiparinn smátt.
Setti í pönnu með smá ólívuolíu og nokkrum saltkornum.
Leyfði því að dóla sér aðeins á meðan ég skar spínatið til.
Það var með frekar grófum stilkum.

Bætti spínatinu á pönnuna og rjómanum.

Leyfði þessu að malla aðeins þar til spínatið var orðið frekar lint.

Á meðan þeytti ég saman egg og krydd.

Tók spínatið af, síaði rjómann frá og bætti honum síðan út í eggin þegar hann hafði kólnað aðeins. Þar sem ég nennti ekki að bíða alltof lengi, en vildi samt ekki breyta þessu í eggjahræru þarna í skálinni, þá bætti ég rjómanum út í smátt og smátt.
Þannig að það yrði ekki of mikið sjokk fyrir eggin að hitta heitan rjómann, þið skiljið.

Og út í þetta fór spínatið, hvítlaukurinn og chillið.

Og á pönnuna (sem ég skolaði á milli) fór ólívuolía.

Og loks fór eggjagumsið á pönnuna. Á mjög vægan hita. Og lok strax yfir.

Ekki alveg strax samt. Henti mascarpone ostinum yfir í smáklípum.
Fannst það koma betur út en að hræra honum saman við allt.
Skemmtilegri áferð og eins óvænt að fá smá ost svona við og við.

Þarna dólaði þetta sér í 20-30 mínútur.

Hitinn þarf að vera lágur svo það brenni ekki á botninum.

Það má líka auðvitað skella þessu bara inn í ofn ef fólk vill það frekar.
Ég nennti ekki að finna til passlega stórt fat og pannan var hvort eða er þarna.

Verði ykkur að góðu!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s