Gleðilegt ár öll sömul!
Ég veit að það er kominn 13.janúar, en sama samt.
Ég hef verið frekar löt við að henda inn uppskriftum.
Aðeins of upptekin við bakstur og eldamennsku yfir jólin og síðan tekur alltaf
nokkra daga að jafna sig og komast í rútínuna.
Afsakanir, afsakanir….
Eins og alltaf á þessum árstíma, fer ég að skoða myndir í tölvunni.
Myndir frá liðnum sumrum. Sól. Hita. Birtu.
Og reyna að taka aðeins til í þessum blessaða myndbunka sem safnast þar fyrir.
Það er alveg þónokkrar uppskriftir sem gætu átt það til að detta hér inn á næstunni,
en hér kemur fiskur kvöldsins. Sem gæti ekki verið einfaldari.
ΨΑΡΙ ΜΕ ΛΕΜΟΝΙ
Eða…fiskur með sítrónu…
Enn og aftur var þorskur í matinn.
Og ég var í dálítið grísku skapi, sem þýðir sítrónur og ólívuolía.
Og oregano.
Svona gerðist þorskurinn í kvöld:
Eins og svo oft, byrjaði ég á því að setja góða ólívuolíu í fat, örlítið sjávarsalt og hvítan pipar.
Í kvöld duttu þunnt skornar sítrónur í fatið og síðan kom fiskurinn.
Meiri ólívuolíu ofan á fiskinn, sjávarsalt, hvítan pipar og því næst fleiri sítrónusneiðar.
Og örlítið af oregano. En ekki hvaða oregano sem er. Þetta var gríska oreganoið mitt sem ég á ennþá örlítið eftir af. Sem þýðir að ég þarf líklega að koma mér til Grikklands fljótlega og ná í meira? Er það ekki?
Og inn í ofn – fyrst hafði ég fiskinn á svona 160 gráðum í dágóða stund og hækkaði því næst í 180 gráður síðustu mínúturnar. Og það er enginn tími hér. Hversu lengi fiskur er í ofni fer alfarið eftir því hversu þykkur hann er.
Og síðan var það favað.
Favabaunirnar sem komu með mér frá Santorini og vaxa einungis þar.
Mér finnst varla taka því að henda inn uppskriftinni, en hér kemur hún samt.
Fava baunirnar sem ég notaði í kvöld keypti ég hérna.
Þar fengust líka tómatar…
Og svo var þessi hressi asni þarna líka….
ΦΑΒΑ
1 laukur
1 hvítlauksrif
ólívuolía
500 gr favabaunir
vatn
sjávarsalt
sítróna
Laukur skorinn smátt og settur í pott ásamt ólíuvolía og örlitlu sjávarsalti.
Látinn mýkjast aðeins, en þá fer vatnið útí. Baunirnar skolaðar og þeim bætt út í vatnið.
Og síðan er þetta soðið í 45-50 mínútur eða eins lengi og það tekur fyrir baunirnar að verða mjúkar og góðar. Þetta er algengur forréttur í grikklandi, borinn fram með góðu brauði.
Ekki forréttur sem þú pantar þér og situr svo að sjálfur, heldur eru pantaðir margir litlir forréttir og allir deila þeim saman.
Og svo kapers og ólívur ofaná, smá af gríska oreganoinu og örlítil ólívuolía þar yfir.
Ég er að hugsa um að enda þessa færslu á grískri strönd.
Þar er gott að liggja og lesa, eða dútla sér við það að endurgera þekkt málverk úr steinum.
p.s.þetta er Ópið eftir Munch ef þið voruð ekki búin að fatta það.
Verði ykkur að góðu:)