Kvöldmatur var óvanalega seint á ferð í kvöld.
Húsfreyjan var svo þreytt eftir langan dag, að hún steinsofnaði – en hafði sem betur
fer haft vit á að taka út túnfisksteikur áður en það gerðist.
Og þar sem hún svaf óvanalega lengi, náðu þær að afþiðna vel.
Maturinn varð svo til á nokkrum mínútum og þurfti ekki margt í hann.
Einn lítill kúrbítur fannst í skúffunni og einn fallegur laukur.
Saman fóru félagarnir á pönnu með ólívuolíu og ögn af sjávarsalti.
Dóluðu sér þar í rólegheitum – á vægum hita sem sé – þar til túnfiskurinn skellti sér með á
pönnuna.
Var búin að sletta á hann vænni slettu af hnausþykku balsamediki, hvítum pipar, papriku og sjávasalti og velta honum upp úr þessu.
Smá salat undir með góðri jómfrúarolíu og balsamedikinu góða.
Laukurinn og kúrbíturinn fengu væna sletta af ögn þynnra balsamediki svona aðeins til að
ná bragðinu góða af pönnunni. Fyrir utan hvað það er mikið einfaldara og auðveldara að þrífa pönnur ef þær hafa verið “degalasaðar” (hvað heitir það aftur á íslensku?) – þið vitið vonandi hvað ég á við og ef ekki þá er hér hlekkur með frekari útskýringu!
“Deglaze-aða” grænmetið ofaná túnfiskinn. Nokkrar ólívur.
Maturinn tilbúinn.
Allt í einu fati og lítið uppvask.
Verði ykkur að góðu!