Hljómar flókið en er í raun fáránlega einfalt.
Eins og með allt og þá skiptir hráefnið miklu máli.
Aðalmáli.
Einn kjúklingur
3-4 tsk harissa mauk
3-4 msk ólífuolía/arganolía (ég var með blöndu af báðum í þetta sinn)
Blandað saman (olíu og harissa) og kjúklingurinn þakinn með blöndunni(passið að nudda ekki í ykkur augun næstu tímana á eftir! Harissa er frekar sterk…).
Það er ekki verra að gera þetta nokkrum tímum áður en hann fer í ofninn og leyfa
honum að drekka aðeins í sig kryddin.
Inn í ofn…í þetta sinn var ég með hitann fremur lágan til að byrja með út af tómötunum – 150 gráður eða svo – hækkaði síðan í 180 gráður undir rest.
Hann var líka frekar stór þessi og ekkert að flýta sér:)
Fallega þroskaðir tómatar – rauðir, gulir, fjólubláir…alla þá liti sem þið finnið! Sletta af balsamediki, sletta af ólífuolía, smá sjávarsalt..
Og inn í ofn…með kjúklingnum (í öðru fati samt!)
Síðan er hægt að fara að gera eitthvað allt annað næstu 2 tímana eða svo.
Eitthvað skemmtilegt, eitthvað leiðilegt – skiptir ekki máli.
Þegar tómatarnir eru orðnir mjúkir og fallegir, þá kippið þeim út og
hækkið ofninn í smástund. Til dæmis meðan núðlurnar eru “eldaðar”.
Það er að segja, rifnar á mandólíni.
Það tekur enga stund. Því næst “núðlunum” skellt á pönnu með ögn af ólífuolíu og sjávarsalti og aðeins látnar linast. Ekkert of mikið samt.
Var því miður bara með einn stóran kúrbít í þetta sinn – tveir hefðu verið passlegt miðað við annað.
Verði ykkur að góðu!:)