Einfalt og fljótlegt er stundum það sem þarf. Úrvalið af skyndibita, tilbúnum mat eða mat sem hægt er að kippa með sér er því miður fáránlega einhæft, vont og dýrt miðað við það sem oft á tíðum er verið að bjóða uppá. Og ekki lækkar verðið með auknum ferðamannastraum né gæðin. Nóg um það!
Það er í góðu lagi að kaupa tilbúnar fiskbollur og skella þeim á pönnu, en það er alveg nauðsynlegt að hafa eitthvað gott með. Það má auðvitað gera sínar eigin ef tími er til, en það verður að játast að þegar klukkan er að verða sjö og langur dagur í eldhúsi þegar að baki, þá er ágætt að einhver annar sé búinn að spara manni þá vinnu.
Nokkrar kartöflur skornar í tvennt eða fernt eftir stærð. Ólífuolía, sjávarsalt, sætt paprikukrydd, timían, oregano og smá smjör..inn í ofn við 200 gráður í sirka klukkutíma eða bara þar til allt er tilbúið. Hrært í fatinu við og við eða bara þegar þið nennið.
Nokkrir tómatar duttu í fatið líka og fengu að eldast með. Smátt skorinn laukur er líka tilvalin viðbót.
Fiskibollur steiktar þegar kartöflurnar eru að verða tilbúnar. Og bara…matur!
Og nú er komið að því að þrífa blessað fatið. Halló stálull!
Verði ykkur að góðu:)