Ég er frekar hrifin af kalkún og hann á það til að taka á sig ýmsar myndir hér á heimilinu.
Oft lendir hann í ofni, stundum er hann soðinn hægt og rólega en í kvöld lenti hann í karríkássu.
Hér koma hlutföllin nokkurn veginn-algjör óþarfi að taka þau samt of hátíðlega!
1 stór laukur smátt skorinn
5-6 gulrætur
Kalkúnabringa (þessi var dálítið stór…1,3 kg)
2 stórar krukkur satay sósa
(krukka af crunchy hnetusmjöri og sletta af sojasósu myndi virka vel líka í staðinn)
1 dós kókosmjólk
Slatti af karríblöndu – þá sem hendi er næst (2-3 msk sirka í þessu tilfelli)
Kartöflurnar sem urðu afgangs í gær (8-10 stk)
Og hrísgrjón. Soðin. Að sjálfsögðu…
Smá ólífuolía og sjávarsalt.
Laukur, gulrætur, olía og sjávarsalt á pönnuna.
Því næst er kalkúnabringan skorin í bita, 2 krukkur af sataysósu opnaðar og 1 dós af kókosmjólk. Allt lendir þetta saman á pönnunni. Splash!
Og sletta af karrí. Kartöflurnar skrældar og skornar gróflega og útí…og látið malla á frekar lágum hita á pönnu með loki í alveg…15-20 mínútur? Svona sirka það.
Borið fram með hrísgrjónum!
Verði ykkur að góðu!:)