Hér á heimilinu hefur verið suðað um fondue í þó nokkra daga.
Yngsti fjölskyldumeðlimurinn hefur verið með einhvers konar pest og fór að suða um fondue. Handviss um að það myndi hressa hann við! Og ég er ekki frá því að það hafi virkað.
Potturinn var keyptur í fyrradag og síðan var lagst í rannsóknarvinnu og fundin einfaldasta og besta leiðin. Og útfærð miðað við aðstæður.
Gruyere var hvergi finnanlegur og vakti það margar spurningar um það óréttlæti að geta ekki keypt gruyere ost í íslenskri verslun árið 2017. Ógerilsneyddir erlendir ostar eru víst svo stórhættulegir að það hálfa væri nóg. Allavega sumir. Comte er víst ógerilsneyddur líka en ekki segja neinum – þannig að hann verði ekki rifinn úr hillum verslana líka.
Við fundum hins vegar Comte sem hægt var að nota ásamt Emmentaler. Og notuðum þá í svipuðum hlutföllum. Um það bil 450-500 grömm af hvorri tegund voru rifin á grófu rifjárni, 2-3 msk af maizena mjöli bætt þar útí og látið þekja ostinn vel.
Á meðan var hvítvínið hitað hægt og rólega í pottinum – sirka hálf flaska.
Vissulega var potturinn nuddaður að innan með einu hvítlauksrifi eins og lög gera ráð fyrir. 
Hvítvínið fékk að hitna hægt og rólega og þegar sirka 40 stiga hita myndi ég halda var náð, hófst “ostahræringin”.Smá í einu…aðeins meira…hitinn hækkaður….hrært meira… Þar til allt var farið að líta út eins og fondue! Smá þolinmæðisvinna en mikið hægt að hlæja á meðan og skemmta sér.
Auðvitað var magnið aðeins of vel í lagt fyrir 3, þannig að hér eru afgangar af ýmsu sem verða eitthvað skrautlegt í kvöld. Blómkálsgratín? Bakað blómkál með tonni af raspi gerðum úr brauðtengingunum sem eftir urðu? Ég veit ekki….en þar sem þetta var gert eftir kúnstarinnar reglum varð að bíða þar til “kröstið” á botninum var orðið vel steikt þarna fyrir rest. Þar til “nunnan” eða “la religieuse” birtist.
Þið getið lesið ykkur til um sögu fondue hér á wikipedia.
Þegar hér var komið sögu og allir komnir með meira en nóg – var nunnunni smalað saman og á disk til síðari nota. Það tók smá tíma en á meðan var hlegið og skrafað og næsta fondue skipulagt. Kannski súkkulaði fondue? Eða kjöt og setja olíu í pottinn? Mig langar allavega ekki í mikið meira ostafondue á næstunni þó svo það hafi verið gott!
Eitt ráð – reynið að vera tilbúin með Jello til að eiga eftir fondue-ið!
Hér á bæ var algjörlega klikkað á því – allir fengu mega craving í Jello. Veit ekki hvort það var sökum þess að við vorum komin í pínu 60’s fíling eftir fondue-ið. Vantaði bara skíðagalla og fjallakofa og að James Bond birtist (vonandi með Jello) en það gerist kannski næst:)
Skemmtið ykkur vel við fondue-pottinn og munið að hafa Jello tilbúið á eftir! Ég get ekki ítrekað það nóg!
Verði ykkur að góðu!:)